Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Réttarstaða þolenda verður bætt

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Dómsmálaráðherra undirbýr lagabreytingar til að bæða stöðu þeirra sem beittir eru kynferðisofbeldi. Þá hvetur ráðherra lögregluembættin til að auka upplýsingagjöf til þolenda. 

Fram kom í niðurstöðum rannsóknar sem kynntar voru á fimmtudag að það getur verið þolendum mjög þungbært að fá ekki upplýsingar um stöðu rannsóknar á kynferðisbroti. Þolendur fá stöðu vitnis í sakamálinu. Þeir eru því ekki aðili að málinu og eiga ekki rétt á að fá upplýsingar um gang rannsóknar, til dæmis hvort brotamaðurinn hafi verið settur í gæsluvarðhald eða leystur úr því.

„Ég sá þarna tillögu sem hægt er að bregðast við þrátt fyrir að þolandi væri áfram ekki aðili máls eins og t.d. upplýsingagjöf og hvernig meintum þolanda er sagt frá ákveðnum atvikum í málinu og slíkt, hvernig því vindur fram og svo framvegis,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra. 

Þórdís segir að mikill vilji sé hjá stjórnvöldum að bæta úr annmörkum. 

„Við höfum bæði sýnt það í aðgerðum en svo er líka þverpólitískur vilji til breytinga,“ segir Þórdís.

Telurðu að það væri hægt með tiltölulega lítilli fyrirhöfn að bæta upplýsingagjöf til þeirra sem fyrir ofbeldinu verða?

„Það er hægt að gera það. Það á bæði við um upplýsingagjöf og líka hvernig upplýsingum er komið á framfæri. Þar t.d. er embættið á Norðurlandi, það hefur breytt um verklag. Þar er tilraunaverkefni í gangi, þ.e.a.s. að setjast niður með viðkomandi í stað þess að fá sent bréf. Þetta er meiri háttar breyting fyrir þá sem fá bréfið heim til sín. Þetta er lítið en mikilvægt dæmi um atriði sem við getum breytt með verklagi okkar,“ segir Þórdís.

Og þarf ekki aðkomu ráðuneytisins?

„Nei, þarf ekki aðkomu ráðuneytisins og vonandi er þetta verkefni sem önnur embætti munu taka upp. Þetta er bara eitt dæmi. Það eru mörg svona. En auðvitað erum við líka að skoða hvaða lagabreytingar við getum farið í. Þannig að þetta er hvort tveggja, lagabreyting, verklagsbreyting og viðhorfsbreyting sem mér finnst við hafa séð miklar breytingar á, sem betur fer,“ segir Þórdís.