Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Réttarkerfið stendur ekki með fötluðu fólki“

Mynd: Hrefna Rós Matthíasdóttir / RÚV
Þess eru dæmi að fullorðnum einstaklingum með þroskahömlun sé vísað frá geðdeildum þegar þeir leita þangað vegna geðraskana eða -sjúkdóma. Þetta segir Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

Bryndís segist ekki minnast þess að Þroskahjálp eða aðrir hafi kært með formlegum hætti þegar skjólstæðingum Þroskahjálpar sé með þessum hætti synjað um heilbrigðisþjónustu sem það, með lögum, eigi rétt hjá. Hins vegar hafi slíkum málum verið vísað til réttargæslumanna sem þá leiti réttar fólksins.

„Við höfum ekki góða reynsu af réttarkerfinu, það stendur ekki sérstaklega vel með fötluðu fólki,“ segir Bryndís.

Þroskahjálp heldur ráðstefnu á laugardag sem ber yfirskriftina: Fíkni- og geðheilbrigðisvandi fólks með þroskahömlun og einhverfu. Ráðstefnan er haldin í tengslum við landsþing Þroskahjálpar sem verður haldið síðar sama dag. Ráðstefnan verður á Grand hóteli og stendur frá 8.45-12.20.

Rætt var við Bryndísi á Morgunvaktinni á Rás 1 og hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér að ofan.

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV