Réttarhöld hafin yfir Pussy Riot

30.07.2012 - 08:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Réttarhöld hófust í morgun í Moskvu yfir þremur konum í rússnesku rokksveitinni Pussy Riot sem sakaðar eru um óspektir á almannafæri. Þær fóru í febrúar inn í helstu dómkirkju rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og fluttu þar lag til að mótmæla stjórnarháttum Vladimir Pútin forseta.

Konurnar eiga yfir höfði sér allt að sjö ára fangelsi fyrir tiltækið en við fyrirtöku málsins fyrr í mánuðinum var ákveðið að þær ættu að sæta varðhaldi fram í janúar á næsta ári. Því hafa stuðningsmenn kvennanna mótmælt harðlega. Í laginu eða pönkbæninni sem hljómsveitin flutti í kirkjunni voru Pútin ekki vandaðar kveðjurnar en kirkjunnar menn segja að þær séu sekar um guðlast.

Rússneska þjóðin skiptist í andstæðar fylkingar í málinu en um eitt hundrað þekktir rússneskir listamenn hafa hvatt stjórnvöld til að láta konurnar
lausar. Réttarhöldin beri vott um að lýðræði og málfrelsi sé fótum troðið og landsmenn búi í lögregluríki. Réttarsalurinn var troðfullur þegar konurnar voru leiddar fyrir dómara í morgun en litið er á réttarhöldin sem lið í uppgjöri milli rússneskra ráðamanna og stjórnarandstöðunnar. Enski tónlistarmaðurinn Sting og bandarísku rokkararnir í Red Hot Chili Peppers hafa líka tekið málstað kvennanna þriggja í Pussy Riot.