Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Rekstrarkostnaður bankanna áhyggjuefni

07.02.2013 - 09:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Samkeppniseftirlitið hefur áhyggjur af auknum rekstrarkostnaði stóru viðskiptabankanna þriggja. Að mati Samkeppniseftirlitsins gefur þetta til kynna að samkeppnisaðhaldi í bankaþjónustu sé áfátt og að viðskiptavinir bankanna greiði rekstrarkostnaðinn dýru verði með óhagstæðum viðskiptakjörum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu eftirlitsins, Fjármálaþjónusta á krossgötum.  Þar kemur  fram að rekstrarkostnaður bankanna hafi aukist verulega á hverju ári frá hruni. Hann var 61 milljarður árið 2011 og sé miðað við níu mánaða uppgjör bankanna megi áætla að rekstrarkostnaður bankanna hafi verið um 72 milljarðar árið 2012.

Samkeppniseftirlitið segir einnig að endurmat lána hafi aukið hagnað bankanna umtalsvert og telur eftirlitið að þessi aukni hagnaður kunni að hafa leitt til þess að rekstrarkostnaður  bankanna hafi ekki fengið nægjanlega athygli í almennri umræðu. Erfitt sé að draga aðra ályktun en að aðhald með rekstrarkostnaði bankanna hafi verið minna en aðhald með rekstrarkostnaði fyrirtækja og stofnana á öðrum sviðum hagkerfisins eftir hrun, laun bankastarfsmanna hafi til að mynda hækkað meira en flestra annarra stétta. Rekstrarkostnaður bankanna hafi hækkað um fimmtán prósent milli áranna 2009 til 2010 en á sama tíma hafi rekstrarkostnaður um 26 þúsund fyrirtækja landsins hækkað um rúm sex prósent á sama tíma.

Í skýrslunni segir einnig að þessi rekstrarkostnaður sé hár í alþjóðlegum samanburði, hann hafi verið um 2,3 prósent af eignum bankanna en til samanburðar má nefna að rekstarkostnaður fimmtán lítilla norrænna banka og stórra evrópskra banka sem hlutfall af eignum var á bilinu 0,6 til 1,5 prósent árið 2011.