Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Rekja sjö dauðsföll til misnotkunar á Suboxone

30.05.2016 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: druginfos.com
Grunur er um að rekja megi sjö dauðsföll hér á landi til misnotkunar á læknadópinu Suboxone á aðeins þremur árum. Fíklar brytja lyfið niður og taka það í nefið, í stað þess að taka það inn í töfluformi.

Rúmlega 50 tilvik um misnotkun á lyfinu Suboxone komu upp á Litla-Hrauni á síðasta ári. Dæmi eru um að sjúklingar skrái sig inn á Vog til þess eins að verða sér út um lyfið, sem gengur kaupum og sölum á Litla-Hrauni. Suboxone (söboxón) er ætlað sjúklingum í viðhaldsmeðferð við heróín- og morfínfíkn og á að koma í veg fyrir fráhvarfseinkenni. Ólafur B. Einarsson, verkefnisstjóri lyfjamála hjá embætti Landlæknis, segir að þar á bæ séu menn meðvitaðir um vandann.

„Við höfum fengið ábendingar frá Litla Hrauni um að það sé til vandræða þetta lyf. Það eru einstaklingar í þessari meðferð þar inni en þeir eru víst ekki margir. En vandamálið snýst um að það er verið að smygla þessu inn til fanga á Litla Hrauni,“ segir Ólafur.

Hvernig er þetta lyf misnotað?

„Það sem við höfum heyrt er að þetta sé ekki tekið eins og það á að taka það heldur sé þetta sniffað af föngum. Þeir fái öðruvísi vímu af þessu þannig heldur en ef þetta er tekið inn á eðlilegan hátt.“

Hversu hættuleg er misnotkun á þessu lyfi?

„Í okkar athgunum höfum við verið að sjá þessi lyf koma upp í dauðsföllum hjá einstaklingum þar sem grunur er um að dauðsfall megi rekja til lyfjaeitrunar. Og þetta lyf hefur komið nokkrum sinnum þar við sögu.“

Hversu mörg eru þau tilfelli á síðustu árum?

„Þetta kemur fyrst upp 2013, þá eru tvö tilvik. Svo eru tvö tilvik 2014 og svo þrjú í fyrra.“

Þannig að þetta eru allt í allt sjö tilfelli?

„Já.“

Af þessum sjö tilfellum, eru tilfelli þar sem staðfest er að Suboxone hafi valdið dauða viðkomandi?

„Það eru leiddar líkur að því, já, að það megi rekja dauðsföll til eitrunar af völdum Suboxone já.“

Ólafur segir að mjög erfitt sé að taka á vandanum. Slæmur Suboxone faraldur hafi hins vegar komið upp í Noregi þar sem gripið hafi verið til ákveðinna aðgerða

„Í Noregi brugðu þeir á það ráð að leysa lyfið upp í vatni og láta sjúklinga taka lyfið bara beint þannig. Sem sagt að afhenda ekki fólki sem á við þennan vanda að etja skammt til ákveðins tíma.“

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV