Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Rekja minnkandi mengun í Kína til áhrifa af COVID-19

01.03.2020 - 15:08
epa08261599 A man wearing a protective mask rides a bicycle in the Qianmen area during a sunny day in Beijing, China, 01 March 2020. According to the US space agency NASA, satellite images show China's pollution has cleared due to an economic slowdown prompted by the coronavirus.  EPA-EFE/WU HONG
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mengun hefur minnkað mikið í Kína, samkvæmt gervitunglamyndum frá NASA, bandarísku geimvísindastofnuninni. Sérfræðingar stofnunarinnar telja að hluti skýringarinnar sé áhrif COVID-19 kórónaveirunnar. Öll efnahagsumsvif í Kína hafa minnkað til muna á þessu ári, enda hefur fólk verið hvatt til að halda sig heima og fjölda fyrirtækja hefur verið lokað. Allt hefur þetta verið gert til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar.

Samkvæmt mælingum NASA þá hefur köfnunarefnisdíoxíð, NO2, í andrúmsloftinu minnkað, að því er segir í frétt Guardian. Það efni berst til að mynda frá farartækjum sem knúin eru eldsneyti og verksmiðjum. Fyrst varð vart við minnkun á köfnunarefnisdíoxíði við Wuhan-borg þar sem talið er að veiran sé upprunnin. Í framhaldinu hefur einnig mælst minnkun víðar um Kína. 

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé svo mikla minnkun á svo stóru svæði vegna eins atburðar,“ hefur Guardian eftir Fei Liu, loftgæðasérfræðingi hjá NASA. Þá segir Liu að magn köfnunarefnisdíoxíðs í andrúmslofti hafi minnkað víða um lönd á tímum bankahrunsins árið 2008 en að sú minnkun hafi ekki verið eins skörp og hún hefur verið í Kína á árinu. Hún minnkaði einnig töluvert í höfuðborg Kína, Beijing, þegar Ólympíuleikarnir voru haldnir þar árið 2008. Það breyttist aftur að leikunum loknum. 

Talið er að hluta minnkunarinnar megi einnig rekja til nýárshátíðahalda víða um Asíu um mánaðamótin janúar, febrúar. Þá er fjölda fyrirtækja lokað. Yfirleitt hefur mengunin aukist eftir hátíðahöldin. Sérfræðingar telja þó að hátíðahöldin séu ekki helsta skýringin enda hafi styrkur köfnunarefnisdíoxíðs minnkað um tíu til þrjátíu prósent í mið- og austurhluta Kína, sé miðað við þennan árstíma, fyrstu vikur ársins.