Reka ferðamenn úr Reynisfjöru

21.08.2019 - 22:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristín Sigurðardóttir
Lögreglan á Suðurlandi hefur þurft að reka ferðamenn úr Reynisfjöru sem var lokað eftir að skriða féll í hana. Sigurður Sigurbjörnsson, varðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurlandi, kom í dag að um þrjátíu ferðamönnum á miklu hættusvæði í fjörunni, við jaðarinn þar sem skriðan féll.

Erfitt að halda svæðinu lokuðu

Fjörunni er lokað með lögregluborða. Sigurður sagði í samtali við mbl.is að lögreglan gerði sitt besta, miðað við mannskap, til að fylgjast með svæðinu og halda því lokuðu. Erfitt sé að loka þar sem lögregluborðar ráði illa við Atlantshafið, sagði hann í samtali við fréttastofu. Mbl.is greindi fyrst frá.

Tveir ferðamenn voru í fjörunni í kvöld þegar Sigurður kom þangað. Þá var aldan mikil svo ekki var hægt að komast að lokaða svæðinu. Á morgun verða aðstæður í fjörunni kannaðar á ný. Ekki virðist hafa hrunið meira frá því í gær, segir Sigurður.

Ekki fengist fjármagn til eftirlits

Á föstudag hittast landeigendur og Vegagerðin á fundi. Þá skýrist hvort gripið verður til varanlegra aðgerða. Sérfræðingur hjá Veðurstofunni segir að ekki hafi fengist fé til að fylgjast með hrunhættu við Reynisfjöru eða á öðrum ferðamannastöðum víða um land. 

Fjörunni lokað vegna grjóthruns

Austasta hluta fjörunnar var lokað eftir að grjót hrundi þar í fyrradag. Karlmaður höfuðkúpubrotnaði og barn slasaðist minna. Þá hrundi stór skriða úr fjallinu í gær og útlit er fyrir áframhaldandi hrun. Klettabergið við fjöruna er talsvert sprungið og bergið óstöðugt. 

Reynisfjara með vinsælli ferðamannastöðunum

Reynisfjara er með fjölförnustu ferðamannastöðum á Íslandi. Þangað koma ferðamenn bæði í skipulögðum hópferðum og á eigin vegum. Fjöldi ferðamanna gerði sér ferð í fjöruna í gær en virtu lokanir lögreglu. Sigurður hrósaði ferðamönnunum í gær í samtali við fréttastofu og var ánægður með þá.

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi