Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Reistu kross á byggingarreit þjóðgarðsmiðstöðvar

24.02.2020 - 10:19
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Beðið hefur verið eftir þjóðgarðsmiðstöð á Snæfellsnesi í um fimmtán ár. Svo langt er liðið að íbúar hafa reist kross á byggingarsvæðinu.

Þjóðgarðsmiðstöðin á að rísa á Hellissandi og vera þungamiðja í starfsemi Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Kross birtist nýlega á byggingarreitnum og er til marks um þann tíma sem beðið hefur verið eftir að húsið sé reist.

Þjóðgarðurinn var stofnaður 2001. Verðlaunahönnun á miðstöðinni var valin 2006 og upp úr því átti að hefja framkvæmdi, en svo stöðvaðist allt í um áratug.

Jón Björnsson, þjóðgarðsvörður, rekur sögu miðstöðvarinnar.

„Þetta var akkúrat 2007 þegar allt er í bullandi uppgangi hér á Íslandi. 2008 verður bankahrunið sem setur allt á klaka, það gerist ekkert í mörg ár. 2016 er opnuð gestastofa á Malarrifi og sama ár er tekin skóflustunga að þjóðgarðsmiðstöðinni á Hellissandi,“ segir hann.

Jarðvegsvinna fór svo fram í fyrra og framkvæmd við bygginguna sjálfa var boðin út skömmu síðar. Kostnaðaráætlun Framkvæmdasýslu ríkisins við bygginguna hljóðaði upp á um 460 milljónir. Lægsta boð fór hins vegar töluvert fram úr áætlun og hljóðaði upp á 620 milljónir.

Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslunnar segir að ákveðið var í samráði við verkkaupa að hafna öllum tilboðum.

„Ákveðið var að fara í ákveðna endurvinnu að endurskoða hönnun að því marki sem þyrfti og framkvæmdatilhögun þannig að við næðum þessu innan kostnaðarramma,“ segir hún.

Stefnt er að því að opna fyrir útboð að nýju í mars. Fari allt að óskum ætti miðstöðin að vera opnuð 2022, 21 ári frá stofnun þjóðgarðsins.

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, segir íbúa orðna óþreyjufulla.

„Það hefur nú verið þannig að ég fæ ófá skot þar sem er verið að gera góðlátlegt grín og verið að brýna mann til þess að fylgja verkefninu áfram. Ég fæ það nánast daglega frá fólkinu því þeim þykir vænt um þjóðgarðinn og þetta verkefni. Þannig ég hef fullan skilning á því hvers vegna fólk er óþolinmótt í þessu,“ segir hann.