Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Reisa þarf þrjá snjóflóðavarnagarða á Seyðisfirði

25.11.2019 - 09:53
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Byggð á Seyðisfirði hefur verið óvarin fyrir snjóflóðum allt of lengi að mati forseta bæjarstjórnar sem segir það hamla uppbyggingu og nýtingu á húsnæði. Bæjaryfirvöld vilja að framkvæmdir við snjóflóðavarnir hefjist sem fyrst.

Þorpið á Seyðisfirði hvílir undir háum fjöllum og vegna hættu á snjóflóðum úr Bjólfi voru fyrir 16 árum reistir varnargarðar á svokallaðri Brún í 650 metra hæð. Meiri mannvirki eru nauðsynleg og hafa verið forhannaðir þrír varnargarðar fyrir ofan þorpið norðanvert. 

Úr Bjólfi féll mannskætt snjóflóð árið 1885, þar sem 24 fórust. Undir fjallinu standa hús á hættusvæði. Þar hefur Ragnhildur Billa Árnadóttir búið alla æfi. „Fyrir svona tveimur árum þá var mikill snjór í fjallinu. Ég vil endilega fá þessa snjóflóðavarnagarða því að ég held að við fáum líka lóðir. Kannski fallegt útivistarsvæði og þær munu veita okkur öryggi.“

Mat á umhverfisáhrifum gæti klárast snemma á næsta ári. Þá þarf að fullhanna garðana og bíða eftir fjárveitingu frá ríkinu í gegnum ofanflóðasjóð. Þeir gætu kostað á annan milljarð. „Seyðisfjörður er eitt af þeim bæjarfélögum sem búa við hvað mesta ofanflóðahættu og er styst komin í vörnum. Þetta stendur okkur fyrir þrifum því að við erum landlítill bær. Sérstaklega hefur það staðið atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum því það er vel nýtanlegt húsnæði sem er erfitt að nýta vegna ofanflóðahættu,“ segir Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði.

Aðspurð um hvort varnirnar verði ekki mjög áberandi og spilli útsýni og ásýnd bæjarins segir hún: „Nei, hönnun á svona mannvirkjum hefur breyst gríðarlega í seinni tíð þannig að þetta er orðið hluti af umhverfinu. Þannig að íbúar eru frekar með áhyggjur af hættunni sem stafar af ofanflóðum heldur en útlitinu,“ segir Hildur.