Reisa girðingu til að fanga fjúkandi rusl

04.08.2019 - 19:41
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Gripið hefur verið til aðgerða til þess að sporna við ruslfjúki frá Sorpurðun Vesturlands í Fíflholtum á Mýrum. Umhverfisstofnun gerði þrjár athugasemdir við starfsemina í maí en bætt hefur verið úr. Erfitt er að koma í veg fyrir að rusl fjúki af ruslahaugunum, segir framkvæmdastjóri sorpurðunarinnar.

Myndskeiði af rusli að fjúka frá sorphaugunum var dreift víða á samfélagsmiðlum í byrjun sumars. Fljótlega eftir að fjölmiðlar birtu myndböndin þess fóru starfsmenn Umhverfisstofnunar í fyrirvaralaust eftirlit í Fíflholt og athugasemdir við starfsemina. Í skýrslu Umhverfisstofnunar segir að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar til þess stemma stigu við foki frá sorphaugunum.

„Í kringum svæðið er alveg skilgreint urðunarsvæði og utan þess viljum við helst ekki sjá mikið fok,“ segir Hrefna Bryndís Jónsdóttir. „En fok er alltaf eitthvað sem er viðvarandi á urðunarstöðum og hér í Fíflholtum er mjög vindasamt. Hér verða öskuvitlaus veður og þá er aldrei hjá því komist að það er mikið sem þarf að takast á við daginn eftir.“

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Hrefna Bryndís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Sorpurðunar Vesturlands.

Verið er að reisa girðingu sem á að fanga það sem fýkur frá urðunarstaðnum. Þá var ráðið í stöðugildi einskonar plokkara á urðunarsvæðinu í sumar til þess að safna því sem fýkur í burtu. Að sögn Hrefnu er plastið erfiðast við að eiga, því það er svo létt og fýkur svo auðveldlega. „Plastið er lang verst. Alveg áberandi verst,“ segir hún.

Sorpurðunin er í eigu sveitarfélaganna á Vesturlandi og tekur við rusli frá þeim öllum. Í fyrra var meira en 15.000 tonn urðuð í Fíflholtum. „Plastefni eru allt of mikið að koma inn því þetta eru efni sem bera úrvinnslugjald og ættu að fara miklu meira í flokkun en þau eru að gera,“ segir Hrefna. „Eins má segja um mjólkurfernur. Þetta eru svona áberandi umbúðir sem maður sér hér inn á urðunarsvæðinu.“

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi