Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Reimar ekki með Haraldi á vegum embættisins

Mynd með færslu
Reimar Pétursson, hæstaréttarlögmaður. Mynd: RUV
Dómsmálaráðherra segir að embætti ríkislögreglustjóra njóti trausts en vill ekki svara því hvort það eigi einnig við um Harald Johannessen. Þingmenn kalla eftir því vilja að Haraldur víki úr embætti, í það minnsta á meðan lögreglumálið er til meðferðar í dómsmálaráðuneytinu.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, gerði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis grein fyrir stöðu lögreglumála í morgun. Í kvöldfréttum sjónvarps í gær tilkynnti Áslaug Arna að til skoðunar væri að sameina embætti ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Skipaninni hafi síðast verið breytt árið 2014 og reynslan sýni að núverandi kerfi bjóði upp á togstreitu. Þá eigi mörg þeirra verkefna sem heyra undir ríkislögreglustjóra frekar heima hjá lögregluumdæmunum.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, vildi ekki tjá sig um hugmyndir um sameiningu lögregluembætta og sagði málið á forræði ráðherra.

 

Haraldur kallaði til lögmann

Fréttastofa greindi frá því í gær að Haraldur Johannessen hafi mætt í fylgd Reimars Péturssonar, hæstaréttarlögmanns, á fund með dómsmálaráðherra í gærmorgun. Í svari við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að embætti ríkislögreglustjóra réð Reimar ekki til starfa og því má álykta að hann hafi setið fundinn sem persónulegur lögmaður Haraldar.

Tjáir sig ekki um traust til Haraldar

 

Um stöðu ríkislögreglustjóra sagði Áslaug Arna: „Hann situr áfram sem ríkislögreglustjóri. Það er auðvitað bara verið að skoða öll þessi mál í heild sinni í ráðuneytinu og það er mjög mikilvægt líka að embættið nýtur trausts. Þar er verið að vinna góða vinnu og mikið af góðu fólki sem er að sinna því.“

 Nýtur Haraldur trausts?

„Ég tjái mig ekki um það.“

Þingmenn vilja að Haraldur víki

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sagði að á fundinum hafi ráðherra greint frá þeirri vinnu sem nú stendur yfir í ráðuneytinu. Hún kvaðst ánægð með svör ráðherra. „Ég held að það þurfi að grípa til aðgerða tafarlaust en ég heyri líka að það er vinna í gangi, það er verið að skoða þessi mál, það skiptir máli og það var vissulega gott að fá það fram.“

Þingmenn bæði úr röðum stjórnar og stjórnarandstöðu vilja að Haraldur víki úr embætti til að skapa frið um störf lögreglunnar. Þeirra á meðal er Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, sem fer með lögreglumál. Þórhildur Sunna segist einnig þeirrar skoðunar. „Það eru svo gott sem allir lögreglumenn á landinu búnir að lýsa yfir vantrausti á hann þannig að ég get ekki séð að hann njóti trausts.“