Reiknar með að Þorsteinn Már taki aftur við Samherja

19.02.2020 - 12:30
Mynd: Samsett mynd / Samsett mynd
„Ég er ekki framtíðarforstjóri félagsins,“ segir Björgólf­ur Jó­hanns­son, starf­andi for­stjóri Sam­herja. Hann ætlar að láta af störfum hjá fyrirtækinu fyr­ir lok næsta mánaðar. Hann tók við af Þorsteini Má Baldvinssyni eftir að Samherjaskjölin svokölluðu voru afhjúpuð í umfjöllun Kveiks.

„Það liggur ljóst fyrir að ég var ráðinn tímabundið til þessara starfa, meðan málið væri í rannsókn. Það er planið okkar núna að þessu yrði lokið í lok fyrsta ársfjórðungs eða í byrjun apríl. Eins og það lítur út núna þá er það planið,“ segir Björgólfur í samtali við fréttastofu.

Reiknið þið þá með því að rannsókninni verði lokið fyrir þann tíma?

„Við reiknum með því já, að þessi rannsókn [norsku lögmannsstofunnar] Wik­borg Rein sé komið á lokastigið á þeim tíma.“

Ætlarðu að segja þig frá öllum störfum tengdum Samherja í kjölfarið?

„Enginn veit sína ævi fyrr en öll er. En allavega er ég ekki framtíðar forstjóri félagsins. Ég var ráðinn tímabundið í starfið og það mun standa.“

Tekur Þorsteinn Már þá aftur við sem forstjóri?

„Ég get nú ekki svarað því. Það verður stjórn félagsins að segja til um. En ég myndi reikna með því já.“

Verður starfsemin þá eins og hún var þegar þú tókst við?

„Sem betur fer hefur starfsemi Samherja gengið snurðulaust eftir að ég kom inn. Okkur hefur tekist að halda öllum þeim viðskiptasamböndum sem félagið þurfti á að halda. Öflugt starfsfólk Samherja hefur séð til þess að starfsemin hefur gengið mjög vel.“

Telur þú þig hafa náð fram því sem þú ætlaðir?

„Já, að sjálfsögðu var stór ákvörðun að taka þetta að sér. En ég sé ekki eftir því þegar maður skoðar í baksýnisspegilinn. Auðvitað hefur stóra málið verið í kringum þessa rannsókn og já, ég held að hlutirnir hafi gengið í raun eins og lagt var upp með í upphafi.“

Björgólfur hefur verið tilnefndur í stjórn Sjóvár á ný en hann steig til hliðar 19. nóvember til þess að taka við forstjórastöðu Samherja. Hann lét einnig af störfum sem stjórnarformaður og stjórnarmaður hjá Íslandsstofu.

Það er búið að tilnefna þig aftur í stjórn Sjóvár. Hvað með annað, ætlarðu aftur til Íslandsstofu?

„Það hefur ekkert verið rætt og ég hef í raun ekkert hugsað út í það. Það er ljóst að ég bauð mig allavega ekki aftur fram í stjórn FESTI. Það hefur ekki verið rætt um Íslandsstofu nei,“ segir Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja.