Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Reikna með ríflega níu milljörðum flugfarþega árið 2040

17.12.2019 - 05:23
Mynd með færslu
 Mynd: EPA - DPA
Fjöldi flugfarþega í heiminum mun að líkindum meira en tvöfaldast á næstu tuttugu árum og flugfélög heimsins flytja yfir níu milljarða manna milli staða á árið 2040.

Þrátt fyrir þungar áhyggjur af loftslagsbreytingum og hlýnun Jarðar af mannavöldum, loftslagskvíða og hið svokallaða flugviskubit sem þetta hefur kveikt hjá fjölda fólks, er ekkert sem bendir til þess að nokkuð lát verði á vexti í flugsamgöngum í bráð, ef marka má sérfræðinga þýsku Flug- og geimferðastofnunarinnar.  Samkvæmt þeim mun flugferðum halda áfram að fjölga verulega og meðal-farþegafjöldinn í hverri vél aukast umtalsvert á næstu árum.

Úr 4 milljörðum í 9.4

Við útreikningana er meðal annars horft til orðinnar og líklegrar þróunar í samsetningu og stærð flugflotans, flugvallaframboði og ferðahegðun fólks. Niðurstaðan er sú að árið 2040 verði flugfarþegar líkast til um 9.4 milljarðar talsins, en þeir voru um fjórir milljarðar árið 2016.

Flugferðum mun fjölga úr 35,5 milljónum í 53 milljónir á þessu sama tímabili, eða um 1,6 prósent á ári að meðaltali. Sérfræðingar stofnunarinnar reikna með að hlutfall stærri véla fari vaxandi og að 179 farþegar verði að meðaltali um borð í hverri vél árið 2014, í stað þeirra 111 sem fluttir voru í meðalvélinni fyrir þremur árum.

1,1 milljarður á ferð og flugi í Evrópusambandinu í fyrra

Hagstofa Evrópusambandsins birti nýverið tölur um flugfarþega í fyrra. Samkvæmt þeim fór um 1,1 milljarður manna í flugferð í Evrópusambandinu árið 2018, um 6 prósentum fleiri en árið áður og 43 prósentum fleiri en árið 2010 - og hafa aldrei verið fleiri.  

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV