Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Reikna með að selja hátt í 44 þúsund bollur í IKEA

24.02.2020 - 13:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Bakarar landsins hafa keppst við að baka bollur og þeyta rjóma til að mæta þessari árlegu þörf Íslendinga sem skellur á í upphafi Góu. Veitingamenn telja að verkfall félagsmanna Eflingar í Reykjavík verði til þess að bolluátið verði jafnvel meira en í meðalbolluári. 

„Vonandi náum við að selja 8-10 þúsund bollur í dag,“ segir Daníel Kári Stefánsson, veitingastjóri IKEA. Undirbúningur í bakaríi fyrirtækisins hefur staðið í mánuð eða svo. Reiknað er með metsölu í ár sem jafngildir nærri þremur bollum á hvern Garðbæing. mann fyrir alla Garðbæinga.

„Við erum búin að selja nærri 36 þúsund bollur fram að deginum í dag. Við reiknum með að við séum að enda í 43-44 þúsund bollum. Það er talsvert meira en síðustu ár.“

Hvað velur þessari aukningu?

„Það er margt sem gæti spilað inn í. Það er verkfall, þannig að margir leikskólar eru í fríi til dæmis. Konudagurinn í gær kemur inn í bolludaginn. Svo höfum við bara haldið góðu verði áfram,“ segir Daníel.

Þótt bakarar húsgagnarisans geti svo slakað á bollubakstrinum eru engin rólegheit að skella á í veitingarekstrinum, enda saltkjöt og baunir á boðstólum í morgun. Og nóg af því.

„Við erum einmitt að byrja að undirbúa sprengidaginn núna. Við reiknum með þrjú þúsund manns í mat hérna á morgun.“

Hvenær hefst undirbúningur fyrir svona stóra daga?

„Undirbúningur fyrir bolludaginn hófst fyrir 3-4 vikum síðan. Við erum orðin svo vön sprengideginum, það er orðin rútína hjá okkur. Við mætum í nótt og byrjum að hræra í súpu. Þannig það er fjör þessa daga,“ segir Daníel Kári Stefánsson, veitingastjóri IKEA.