Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Reiður og stressaður fyrir morgundeginum

08.12.2014 - 22:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Adrian Staszczuk, einn af tíu íbúum í leiguhúsnæði í Kópavogi og átti að yfirgefa heimili sitt í kvöld, kveðst vera reiður og stressaður fyrir morgundeginum. Hann hafi greitt leigu fyrir desembermánuð og veit ekki hvar hann finnur lausa íbúð í miðri viku verði hann að fara á morgun.

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu skipaði 10 íbúum í leiguhúsnæði í Kópavogi að yfirgefa heimili sitt í kvöld.  Nokkrir neituðu að fara en sumir leituðu á náðir Rauða krossins eftir gistingu.  

Adrian var búinn að taka loftið úr uppblásna rúminu sínu þegar fréttastofu bar að garði. Hann kvaðst vera undir það búinn að þurfa flytja út. Sem betur fer eigi hann ekki marga hluti því þá væri hann í vandræðum. „Þeir hafa sagt að ég gæti náð í hlutina mína á morgun en þeir sögðu ekki hvenær.“

Leiguherbergin hafa verið útbúin í atvinnuhúsnæði á Nýbýlavegi í Kópavogi og búa þar um 10 manns. Slökkviliðið hefur ítrekað beint tilmælum til eiganda hússins að lagfæra brunavarnir, ella yrðu íbúarnir reknir út.  

Adrian er búinn að borga leiguna og býst ekki við því að fá hana endurgreidda þurfi hann að flytja á morgun. Hann neitaði því að fara en viðurkennir að hann sé bæði reiður og stressaður fyrir morgundeginum. „Já, ég er virkilega reiður og á örugglega ekki eftir að sofa vel.“

Bjarni Kristjánsson, sviðsstjóri hjá slökkviliðinu, segir að ef til lokunar komi í tilvikum eins og þessum hýsi Rauði Krossinn fólk sem eigi ekki í nein hús að venda. „Þannig að það er  í sjálfu sér aldrei neinn settur út á götu sama hvort að veðrið er gott eða slæmt.“

Bjarni segir að eftir samtöl við eigenda vonist hann til að leigjendur geti snúið heim þar sem eigandinn lofi bót og betrun. Það sé þó ekki fullvíst. „Allir þurfa þak yfir höfuðið en hinsvegar þarft þú að geta búið í einhverju öryggi á þeim stað sem þú átt heima á.“