Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Reiðarslag fyrir bæjarfélagið“

27.05.2015 - 18:10
Arnarlax Laxeldi kvíar sjókvíar Vestfirðir Bíldudalur Arnarfjörður Fiskeldi Suðurfirðir
 Mynd: Jóhannes Jónsson - ruv.is
Bankaafgreiðsla Landsbankans leggst af á Tálknafirði eftir föstudag í næstu viku. „Þetta er alls ekki það sem við bjuggumst við,“ segir Indriði Indriðason, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps. Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir þetta vera hluta af almennri þróun.

Indriði segir að fyrir ári síðan hafi öll bankastjórn Landsbankans komið í heimsókn með einkaflugvél. Hann segir stjórnarmeðlimi hafa hrósað uppbyggingunni í bænum og sagst vilja taka þátt í henni. Indriði segir mikla uppbyggingu vera í fiskeldi. „Búist er við fjölgun íbúa um 40-50 manns,“ segir hann. „Ef þetta er ekki nóg til að vilja reka bankaafgreiðslu þá er ástæða til að endurhugsa rekstrargrundvöll bankans. Er þetta höfuðborgarbanki eða er þetta landsbanki?“ spyr Indriði.

Hann segir að líka sé búið að loka pósthúsinu. „Á meðan einkaaðilar eru að koma inn og fjárfesta og taka þátt í uppbyggingu staðarins lætur ríkið sig hverfa,“ segir Indriði. 

Eftir að afgreiðsla Landsbankans verður lögð af í lok næstu viku verður næsta bankaafgreiðsla á Patreksfirði sem er í tæplega 20 km fjarlægð. Indriði segir þetta langt í burtu og það sé oft ófært á veturna.

Bankaviðskipti að stærstum hluta rafræn
„Þetta er bara hluti af þróun sem hefur verið i gangi,“ segir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans. „Bankaheimsóknum fer fækkandi. 90% viðskipta eru orðin rafræn. Þá auðvitað minnkar grundvöllurinn fyrir svona fýsíska þjónustu.“ Kristján segir að mikið af starfsemi Landsbankans á Tálknafirði hafi þegar farið í gegnum útibúið á Patreksfirði enda erfitt að halda úti almennilegri þjónustu á svona litlum stað þar sem jafnvel er bara opið hluta úr degi. Kristján segir almennu þróunina undanfarin ár líka vera þá að viðskiptavinir velji sjálfir að hafa bankasamskipti sín mest rafræn. „Þá brestur líka rekstrargrundvöllurinn fyrir afgreiðslu á svona mörgum litlum stöðum,“ segir Kristján.

Katrín Johnson
Fréttastofa RÚV