Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Reglur brotnar og vegið að æru Atla Rafns

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd. - RÚV
Kristín Eysteinsdóttir Borgarleikhússtjóri og Leikfélag Reykjavíkur fóru á svig við lög og reglur þegar Atla Rafni Sigurðarsyni var sagt upp störfum hjá Borgarleikhúsinu. Uppsögnin hafi verið til þess að vega að æru og persónu Atla Rafns.

Líkt og fram hefur komið voru Kristín og Leikfélag Reykjavíkur dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða Atla Rafni 5,5 milljónir króna í bætur og eina milljón í málskostnað. Atli Rafn stefndi Borgarleikhúsinu eftir að honum var sagt upp vegna ásakana um kynferðislega áreitni.

Reglurnar eiga ekki bara við um þolendur

Í dómnum, sem fréttastofa hefur undir höndum, kemur fram að ekki hafi verið gerð skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað í samræmi við reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Hins vegar hafi verið til handbók starfsfólks sem segir til um hvernig taka eigi á málum sem þessum.

Segir í dómnum að þær leiðbeiningar komi ekki í stað reglugerðarinnar sem hafi að geyma ítarleg ákvæði sem miða að því að vandlega sé staðið að meðferð mála. Þau ákvæði snúi meðal annars að því að vernda eigi bæði rétt þeirra aðila sem fram kvörtunina og þeirra sem kvörtunin beinist að.

Röksemdir Kristínar og Leikfélagsins um að reglugerðinni sé einkum ætlað að vernda hagsmuni þolenda eigi því ekki við rök að styðjast.

Áttu að upplýsa Atla Rafn um eðli ásakana

Þeim hafi einnig borið að gæta að hagsmunum Atla Rafns og gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og enn fremur grípa til ráðstafana til að stöðva hegðunina, ef hún átti við rök að styðjast, og koma í veg fyrir að hún endurtæki sig.

Þess vegna hafi Kristín og Leikfélagið átt að upplýsa Atla Rafn um hvers eðlis ásakanirnar voru og gefa honum kost á að breyta hegðun sinni. Það var ekki gert. „Ekki var farið eftir reglunum og engin gögn liggja fyrir í málinu um það hvenær atvik áttu sér stað eða hvers eðlis umræddar ásakanir voru,“ segir í dómnum.

Ekki sú háttsemi sem búast má við af atvinnurekendum

Þá kemur fram að Atla Rafni hafi verið sagt upp störfum og frumsýningu leiksýningar, sem fyrirhuguð var tveimur vikum síðar, hafi verið frestað. Því hafi Kristínu og Leikfélaginu mátt vera ljóst að beiting svo alvarlegra úrræða „undir þessum kringumstæðum og á ófullnægjandi grundvelli“ hafi verið til þess fallin að valda Atla Rafni tjóni. Kristín og Leikfélagið hafi ekki sýnt þá háttsemi sem ætlast er til af atvinnurekendum og þar sem ekki var farið að lögum við uppsögnina leiði það til bótaskyldu.

Uppsögnin meiðandi fyrir Atla Rafn

Í dómnum segir að ljóst sé aðgerðir Kristínar myndu hafa mikil áhrif á orðspor, starfsheiður og umtal stefnanda og valda honum tjóni. Orðrétt segir:

„Með ákvörðun sinni um að víkja stefnanda frá störfum og fresta frumsýningu leikverks með tilkynningu í fjölmiðlum mátti stefndu vera ljóst að ákvörðun þeirra var til þess fallin að vera meiðandi fyrir stefnanda, sem var þekkt persóna og hafði fram til þessa átt farsælan feril sem leikari. Telur dómarinn að með þessu hafi stefndu vegið að æru hans og persónu [...] Ljóst er að ákvörðunin hefur haft mikil áhrif á stefnanda og kann að hafa áhrif á líf hans og störf til lengri tíma litið.“