Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Reglugerð bannar kynlaus klósett hjá borginni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þórdís Arnljótsdótti - RÚV
Áform mannréttindaráðs borgarinnar um að koma upp ókyngreindri salernisaðstöðu í stjórnsýsluhúsum Reykjavíkurborgar brjóta gegn reglugerð um húsnæði vinnustaða. Kristinn Tómasson, yfirlæknir vinnueftirlitsins, telur að borgin geti ekki látið verða af þessum framkvæmdum nema reglunum verði breytt. 

 

„Ég geri ráð fyrir því að þau þurfi eins og aðrir að fylgja reglum í landinu, þau þurfi allavega að fresta framkvæmdinni þar til reglum verði breytt í samræmi við þessar hugmyndir þeirra um salerni sem ekki eru kyngreind fyrir karla og konur,“ segir Kristinn Tómasson. 

Betra aðgengi fyrir trans og intersex

Í byrjun júlí samþykkti Mannréttinda- og lýðræðisráð borgarinnar að öll salerni starfsfólks í stjórnsýsluhúsum Reykjavíkurborgar skyldu gerð ókyngreind frá og með haustinu. Ráðið taldi samþykktina til þess fallna að draga úr fordómum og skapa betra aðgengi fyrir alla í samfélaginu. Með henni væri komið til móts við þarfir margra hópa, svo sem transfólks, intersexfólks og barna með fötlun sem geti á ókyngreindum salernum notið aðstoðar foreldris, óháð kyni foreldrisins. 

Málið til skoðunar og viðbragða að vænta

Vinnueftirlitið fékk veður af áformunum í fjölmiðlum. Þar á bæ gerðu menn sér grein fyrir því að þau stönguðust á við reglugerð um húsnæði vinnustaða frá árinu 1995. Í 22. grein þeirrar reglugerðar segir að á vinnustöðum þar sem starfa fleiri en fimm karlar og fimm konur skuli salerni og snyrting fyrir hvort kyn aðgreind. Kristinn Tómasson segir að málið sé til skoðunar hjá eftirlitinu, brugðist verði við með formlegum hætti. 

Konur þurfi fleiri klósett

Auk krafna um sérstök salerni fyrir karla og konur er í reglugerðinni að finna ákvæði um að gera skuli ráð fyrir hlutfallslega fleiri salernum fyrir konur en karla. Þannig þurfa salernin að vera að minnsta kosti tvö ef konurnar á vinnustaðnum eru 16 talsins. Það er aftur á móti ekki talin þörf á nema einu salerni fyrir karlana nema þeir séu fleiri en 20. Þá á að bæta öðru við.  

Kristinn segir að  í nútímasamfélagi sé viðurkennt að breyta reglum fyrst, svo megi breyta framkvæmdinni.  En eru þetta úreltar reglur að hans mati? „Það er hin pólitíska umræða sem svarar því þó mér prívat finnist þetta svona reglur gærdagsins er það kannski annarra yfirvalda að úttala sig um það.“

 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV