Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Reggí gott af Reykjanesi

Mynd með færslu
 Mynd: Hjálmar facebook

Reggí gott af Reykjanesi

06.06.2019 - 09:53

Höfundar

Allt er eitt er sjötta hljóðversplata Hjálma. Snúningar sveitarinnar á þetta indælisform hafa verið alls konar í gegnum tíðina, og hér er einn til kominn. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið, sem er plata vikunnar á Rás 2.

Ég hitti Guðm. Kristinn Jónsson í stiganum í gamla Moggahúsinu þegar hann var að dreifa fyrstu Hjálmaplötunni, Hljóðlega af stað (2004). Man að hann sagði við mig: „Þetta er reggí núna, svo verður þetta kannski eitthvað allt annað næst.“ Svo reyndist hins  vegar ekki vera, eins og við þekkjum öll. Þetta fyrsta verk sveitarinnar varð afar vinsælt og fyrr en varði var sveitin komin á fleygiferð. Ári síðar voru þrír Svíar gengnir í bandið, „Lopapeysuplatan“ kom út og staða Hjálma orðin feykisterk. Þessu fyrsta tímabili var svo lokað með Ferðasót (2007). Hjálmar sneru svo aftur með IV (2009), í þetta sinnið fóru upptökur fram í sjálfri Jamaíku og útkoman hreinræktaður reggíóður.

Ári síðar kom Keflavík Kingston (2010), þar sem var að finna safn af lögum sem rötuðu ekki inn á fyrri plötur sveitarinnar ásamt fjórum lögum sem ekki höfðu komið út áður. Síðasta eiginlega hljóðversplatan var svo Órar (2011) og eins sést, útgáfutíðni nokkuð mikil. Á Órum stunduðu Hjálmar meðvitað nokkra tilraunastarfssemi, útkoman nokkurs konar raf-reggí, útgangspunktur sem var skemmtilega undirstrikaður með umslaginu.

Notalegt

Þannig að, allt þetta kom út á sjö ára tímabili, sem er styttri tími en hefur liðið á milli Óra og þessa nýja verks, sem kallast Allt er eitt. Ekki það að mikið hafi breyst í hljóðheiminum, engar áhyggjur þar. Platan inniheldur þessa séríslensku nálgun Hjálma á reggíið líkt og fyrr. Í þetta sinnið er hins vegar ekki verið að skrumskæla með rafhljóðum, heldur er farið aftur í ræturnar ef svo mætti segja. Flæðið allt er notalegt og höfugt, snarpheitum skipt út fyrir ljúflingsgír. Lög Þorsteins Einarssonar flæða áfram í yndisbrag og textar vísa í kærleika og samkennd.

Líkt og venjulega er Þorsteinsþáttur brotinn upp með innslögum frá Sigurði Guðmundssyni, sem eru eins og áður, heldur flippaðri. Þessi blanda virkar vel. Ég hef virkilega gaman af framlagi Sigurðar, textar ávallt kjarnyrtir og skemmtilegir og hann stenst ekki að ýja að nettum furðulegheitum. „Undir fót“ grúvar þannig í knýjandi takti sem er í senn svalur og sætkenndur. Lokalagið, „Hlauptu hratt“ er eftir Þorstein og slítur plötunni á gáskafullan máta. Það er lítið hægt að setja út á þetta verk, þó að ég reyndi. Spilamennska og upptaka er 100% og Hjálmaaðáendur fá hér mikið fyrir sinn reggísnúð.

Tengdar fréttir

Tónlist

Nýtt vín á gömlum belg frá Júníusi Meyvant

Popptónlist

Hjálmar - Allt er eitt

Tónlist

Við höfum aldrei farið hringinn áður

Tónlist

Hjálmar – „Hættur að anda“ í Vikunni