Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Refsiaðgerðir haft veruleg áhrif á hagkerfið

26.07.2019 - 07:52
Mynd með færslu
 Mynd: Google maps - Google
Hagkerfi Norður-Kóreu dróst verulega saman á síðasta ári, í kjölfar viðskiptabanns, og ástandið hefur ekki verið jafnslæmt síðan árið 1997 þegar hungursneyð þar í landi náði hápunkti.

Seðlabanki Suður-Kóreu greindi frá þessu á föstudag. Norður-Kórea birtir ekki opinberar hagtölur og því eru áætlanir annarra ríkja einu upplýsingarnar um efnahag landsins. Í einræðisríkinu eru mestu námuauðlindir skagans og landið var eitt sinn ríkari en nágranninn í suðri. Hins vegar hafði fall Sovétríkjanna mikil áhrif á Norður-Kóreu, auk þess sem óstjórn hefur verið í landinu um árabil. Gífurleg fátækt er í ríkinu og það er áætlað að um tíu milljónir líði matarskort. 

Árið 2017 lagði Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna algert bann við útflutningi á helstu útflutningsvörum ríkisins, þar á meðal kolum, fiski og vefnaðarvöru. Þetta var hluti af refsiaðgerðum ráðsins vegna viðvarandi eldflauga- og kjarnorkutilrauna Norður-Kóreu. Refsiaðgerðirnar takmörkuðu útflutning frá landinu um 85 prósent á síðasta ári á meðan milliríkjaviðskipti minnkuðu um helming. 

Verg landsframleiðsla einræðisríkisins dróst saman um rúm 4 prósent á síðasta ári. Árið á undan dróst hún saman um 3,5 prósent og er þetta mesti samdráttur síðan árið 1997 en á tíunda áratugnum dóu hundruðir þúsunda Norður-Kóreumanna úr hungri.