Rauð veðurviðvörun fyrir stóran hluta landsins

13.02.2020 - 15:50
Innlent · færð · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands - Skjáskot
Veðurstofan hefur gefið út rauða veðurviðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið, Faxaflóa og Suðurland. Búist er við að vindhraðinn geti orðið á bilinu 28 til 35 metrar á sekúndu. Þetta er í fyrsta skipti sem rauð viðvörun er gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið en rauð viðvörun var gefin út fyrir Norðvesturland í desember. 

Í veðurlýsingu fyrir höfuðborgarsvæðið segir að búist sé við að vindhraðinn fari upp í 20 – 30 metra á sekúndu. Örfá hverfi séu í þokkalegu skjóli fyrir austanátt og veðrið nær sér því síður á strik þar. Búast má við samgöngutruflunum á meðan veðrið gengur yfir og að flugsamgöngur leggist af. Hætt er við foktjóni og eru byggingaraðilar hvattir til að ganga vel frá framkvæmdastöðum. Búast má við hækkandi sjávarstöðu og líkur á að smábátar geti laskast og losnað frá bryggju. Fólki er bent á að ganga vel frá lausum munum og sýna varkárni. 

Óvissustigi lýst yfir

Rétt eftir hádegi í dag lýstu almannavarnir ríkislögreglustjóra yfir óvissustigi um allt land. Óvissustigi er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað geti gerst af náttúru- eða mannavöldum sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fóks, umhverfis eða byggðar er ógnað. 

Áætla má að öllum vegum út úr Reykjavík verði lokað í nótt og þeir verði lokaðir langt fram á morgundaginn. Vegagerðin hefur birt yfirlit yfir þá vegi sem eru á óvissustigi vegna veðursins sem er á leiðinni.

Aukinn viðbúnaður Gæslunnar vegna óveðurs

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að viðbúnaður hafi verið aukinn vegna óveðursins. Varðskipið Þór hélt frá Reykjavík klukkan þrjú í dag og heldur á Vestfirði. Alla jafna er eitt varðskip á sjó hverju sinni en vegna veðursins var ákveðið að áhöfnin á varðskipinu Tý væri í viðbragðsstöðu í Reykjavík. Enn fremur eru tvær þyrlur til taks auk tveggja þyrluáhafna ef á þarf að halda.

Þá hvetur Landhelgisgæslan eigendur og umsjónarmenn skipa og báta að huga að þeim vegna þessa slæma veðurs. Auk þess bendir LHG á að öldu- og vindáhlaðandi, samfara þeim lága loftþrýstingi sem spáð er, geti bætt talsvert við sjávarhæð í höfnum umfram það sem útreiknaðar sjávarfallatöflur gefa til kynna.

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi