Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ratcliffe vill efla skógrækt í Vopnafirði

24.09.2019 - 15:48
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Stefánsson - RÚV
Aukið skóglendi í kringum ár á Norðausturlandi gæti aukið fæðuframboð laxins. Forsvarsmenn félaga auðmannsins Jim Ratcliffe kynntu þessa tilraun á Vopnafirði í gær. Þá á að leggja áherslu á að stækka uppeldissvæði með hrognagrefti.

Flogið var með fréttamenn frá Reykjavíkur til Vopnafjarðar í gær til að hlýða á áform Jim Ratcliffs tengdum villtum laxi í ám á Norðausturlandi. Fréttastofa RÚV þáðu ekki boð Ratcliffs um frítt flug heldur óku frétta- og tökumaður RÚV frá Egilsstöðum á fundinn.

Bill Reid stjórnarmaður félaga sem halda utan um landareignir Ratcliffes á Íslandi - sagði í sjónvarpsfréttum RÚV í gær að nú einbeittu þeir sér að fimm ám en þeir gætu bætt einni til tveimur við ef tækifæri til fjárfestingar gæfust.

Elsa Möller skógfræðingur Vopnafjarðarhrepps segir að mögulegt sé að auka æti laxfiskanna með aukinni skógrækt. „Svæðið hér er á köflum mjög illa farið. Það hefur verið mikið beitt hér í fjölda ára og lítið af uppgræðslu. Það er mikilvægt bæði fyrir svæðið, landið og ána að fá meiri gróður í kring.“ Skiptir það máli fyrir laxinn? „Það er spurningin, mun aukinn gróður og lífrænt efni í ánum auka fæðuframboð fyrir laxinn til frambúðar?“

Ratcliffe kynnti samstarf sitt við Hafrannsóknarstofnun í sumar. Hann hyggst styrkja stofnunina um rúmar 80 milljónir til rannsókna á því hvernig hægt sé að efla vöxt laxastofnsins.

Guðni Guðbergsson sviðsstjóri hjá Hafrannsóknarstofnun leggur áherslu á sjálfbærni þegar kemur að nýtingu laxins. Stefnt er á tilraunir með hrognagröft í ám sem Strengur er með á leigu. „Sá sem er betur við að grafa niður hrogn er laxinn sjálfur. Ef að hrygningarstofnar á fiskgengum svæðum eru aflögufærir um hrogn er mögulegt að færa þau á önnur svæði og þannig stækka uppeldissvæði. Ásamt uppeldissvæðum fyrir ofan fossa. Það er fyrst og fremst verið að kanna þá möguleika. Og fylgjast með árangrinum, þannig við fáum mælanlegar niðurstöður hver árangurinn er,“ segir Guðni.