Rannsóknarnefnd almannavarna virkjuð í fyrsta sinn

Myndir frá Landsbjörg af björgunaraðgerðum í óveðrinu í desember.
 Mynd: Slysavarnafélagið Landsbjörg
Dómsmálaráðherra hefur virkjað rannsóknarnefnd almannavarna í fyrsta sinn, vegna fárviðrisins sem gekk yfir landið í síðustu viku. Nefndinni er ætlað að rýna og meta almannavarnaraðgerðir og gera tillögur að úrbótum.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir í pistli í Morgunblaðinu að mikilvægt sé að fá hlutlaust og faglegt mat sérfræðinga á því hvað fór úrskeiðis og hvað sé unnt að bæta til að bregðast enn betur við ef og þegar slíkar aðstæður skapist. Veðrið hafi sýnt að ástand öryggismála og uppbygging innviða er ófullnægjandi.

Nefndin er sjálfstæð og starfar í umboði Alþingis. Hún hefur verið kosin af Alþingi reglulega frá árinu 2008. Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að dómsmálaráðherra hafi gert ráðstafanir svo hægt sé að virkja nefndina og tryggja henni nauðsynlegt fjármagn. Þá þurfi að ljúka við gerð reglugerðar um útfærslu á verkefnum nefndarinnar og störfum og hefur það verkefni verið sett í forgang. 

Verið sé að leggja lokahönd á stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum til þriggja ára í ráðuneytinu. Þess sé vænst að þeirri vinnu verði lokið á fyrri hluta næsta árs.

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi