Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rannsókn á veikindum flugfreyja beinist að hreyflum

Mynd með færslu
 Mynd:
Rannsókn rannsóknarnefndar samgönguslysa á veikindum flugfreyja í Boeing 767-vélum Icelandair beinist að hreyflum og hreyflaviðhaldi. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu um atvik sem átti sér stað í janúar á síðasta ári. Tvö önnur sambærileg mál varðandi Boeing 767-flugvélar Icelandair hafa verið til skoðunar hjá nefndinni og hafa þau verið sameinuð þessari rannsókn.

Í stöðuskýrslunni kemur fram að í byrjun janúar í fyrra hafi vél Icelandair hafi verið snúið við til Keflavíkur vegna veikinda flugfreyja um borð. Rannsóknarnefndinni var gert viðvart enda hafði hún þá verið með nokkur önnur sambærileg mál til rannsóknar vegna veikinda áhafnarmeðlima. 

Í ljós kom að þrjár flugfreyjur höfðu veikst í flugi auk þess sem ein til viðbótar fann til vægra einkenna. Flugfreyjurnar þrjár þurftu súrefni og var ein þeirra óvinnufær í fluginu. Læknir var meðal farþega og sinnti hann umönnun flugfreyjunnar.  

Það sem er sérstakt við þetta tiltekna mál frá því í janúar á síðasta ári er að rannsóknarnefndinni gafst tækifæri til að taka á móti vélinni og taka efnasýni um borð í vélinni strax að lokinni lendingu. Nefndinni hafði ekki gefist kostur á því í fyrri rannsóknum. Rannsóknarnefndin skoðar nú hvort starfsumhverfi flugfreyjanna tengist þessum veikindum og beinist rannsóknin að hreyflum og hreyflaviðhaldi á þessum tilteknum vélum. Umræddar vélar eru enn í notkun hjá Icelandair. 

Fram kom í fréttum RÚV í september að sex mál sem tengdust veikindum flugfreyja hjá Icelandair væru til rannsóknar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa. Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri flugrekstrar hjá Icelandair, sagði í þeirri frétt að atvikin virtust ekki bundin við ákveðnar flugvélar og að farþegar hefðu ekki fundið fyrir sambærilegum einkennum.