Rannsókn á uppákomu í Salnum í Kópavogi hafin að nýju

16.02.2020 - 19:12
Mynd: Aðsend mynd / Aðsent
Ríkissaksóknari hefur farið fram á það við Héraðssaksóknara, að uppákoma á fundi Sjálfstæðismanna í Salnum í Kópavogi í fyrra verði rannsökuð að nýju. Héraðssaksóknari segir að búið sé að taka rannsóknina upp. Á fundinum tók fundargestur sér lögregluvald sem hann ekki hafði.

Í lok apríl í fyrra varð uppákoma á fundi Sjálfstæðismanna í Kópavogi þar sem fjallað var um þriðja orkupakkann. Þrír hælisleitendur vildu þá koma sjónarmiðum um sín málefni á framfæri við Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, þáverandi dómsmálaráðherra, sem sat í pallborði ásamt utanríkisráðherra. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, stýrði fundinum.

Eftir nokkra rekistefnu komu tveir borgaraklæddir menn að hælisleitendunum, og sagðist annar þeirra vera lögreglumaður. 

Að lokum komst ró á mannskapinn þegar aðstoðarmaður utanríkisráðherra blandaði sér í málið.

Maðurinn sem hafði sagst vera lögreglumaður viðurkenndi síðar að það hefðu verið mistök, og að enskukunnátta hefði vafist fyrir sér. Hann er fyrrverandi lögreglumaður.

„Fullt tilefni“

Hælisleitendurnir lögðu nokkrum dögum síðar fram kæru um minniháttar líkamsárás og brot gegn banni við því að menn taki sér opinbert vald sem þeir ekki hafa. Viðurlög við því síðarnefnda eru sektir eða allt að tveggja ára fangelsi.

Héraðssaksóknari felldi málið niður í ágúst en lögmaður hælisleitendanna kærði þá niðurstöðu til ríkissaksóknara. Í lok nóvember komst ríkissaksóknari að þeirri niðurstöðu að héraðssaksóknari skuli rannsaka málið betur. Í bréfi ríkissaksóknara segir meðal annars að ekki liggi fyrir upplýsingar um kærða, til dæmis hvort hann sé lögreglumaður. Nauðsynlegt sé að afla þeirra upplýsinga. Þá sé ekki heldur búið að taka skýrslu af manninum. Ríkissaksóknari leggur áherslu á að almenningi sé skylt að hlýða fyrirmælum lögreglu til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri. Það sé fullt tilefni til þess að halda rannsókn málsins áfram og að frekari rannsókn kunni að upplýsa frekar um hina ætluðu refsiverðu háttsemi.

Niðurstaða ríkissaksóknara er því að fella úr gilidi þá ákvörðun héraðssaksóknara að hætta rannsókn málsins.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir í svari til fréttastofu að búið sé að taka rannsóknina upp og afla þeirra gagna sem ríkissaksóknari taldi vanta. Saksóknarsvið embættisins skoði nú hvort tilefni sé til frekari rannsóknar eða útgáfu ákæru.