Rannsókn á leka úr Glitni hætt

18.01.2018 - 16:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðssaksóknari er hættur rannsókn á leka úr Glitni banka. Fjármálaeftirlitið kærði lekann til embættisins eftir að fréttir fóru að birtast sem byggja á gögnum úr lekanum. Milli 20 og 30 manns voru teknir til skýrslutöku meðan á rannsókn málsins stóð en það skilaði engum upplýsingum um hver hefði dreift upplýsingunum úr Glitni né hver eða hverjir hefðu komið gögnum til fjölmiðla. Málið hefur því verið fellt niður.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir að rannsókninni hafi verið hætt þar sem ekki hafi verið upplýst hver bæri ábyrgð á lekanum. Hann segir að milli 20 og 30 manns hafi komið til skýrslutöku en það hafi ekki varpað frekara ljósi á lekann. Í það minnsta um tólf fjölmiðlamenn voru kallaðir til skýrslutöku. Þeir báru allir fyrir sig lög um vernd heimildarmanna og svöruðu því ekki spurningum um hvernig þeir hefðu fengið gögnin. 

Meðal þeirra frétta sem vísað hefur verið til í umræðu um lekann úr Glitni eru fréttir um hlutabréfaeign hæstaréttardómara og viðskipti Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og fólks honum tengt fyrir hrun. 

Glitnir HoldCo, þrotabú Glitnis, fékk sett lögbann á fréttaflutning Stundarinnar sem byggði á gögnum úr Glitni. Sýslumaður setti lögbannið og tekist var á um það fyrir dómi fyrir skemmstu. Þess er stutt að bíða að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í því máli verði kveðinn upp.

Rannsókn lekamálsins verður ekki hafin á ný nema nýjar upplýsingar berist eða Fjármálaeftirlitið eða Glitnir HoldCo kæri niðurfellinguna til ríkissaksóknara og hann fyrirskipi að rannsókn skuli tekin upp á ný.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi