Rannsókn á hugsanlegum hatursglæp á frumstigi

16.07.2019 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Miðlæg rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur til skoðunar hvort hatursglæpur hafi verið framinn við verslunarkjarna í Breiðholti í gærkvöld. Kona hafi veist að þremur öðrum konum sem eru múslimar og bera slæður. Rannsóknin er á frumstigi. Vinkona kvennanna lýsir árásinni öðruvísi en lögregla, lýsing hennar á atburðarásinni er grófari. Fréttin hefur verið uppfærð.

Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni við Dalveg í Kópavogi, segir konurnar hafa verið staddar fyrir framan verslunarkjarnann Hólagarð í Breiðholti. Þá hafi kona gert að þeim hróp, kallað eitthvað sem þær skildu ekki. Fleira hafi ekki farið þeim á milli. Hann segir að íslensk vinkona kvennanna hafi gert lögreglu viðvart um sexleytið en að lögreglan hafi ekki farið á vettvang þar sem konurnar hafi verið farnar þaðan. Konurnar þrjár hafi svo komið á lögreglustöðina og greint frá málavöxtum. Vinkona kvennanna, Þórunn Ólafsdóttir, lýsir árásinni öðruvísi í færslu á Facebook, og er lýsing hennar mun grófari en lýsing lögreglu. Í færslunni segir að konurnar hafi verið á leið út úr Bónus þegar konan veittist að þeim, fyrst með ókvæðisorðum en síðan hafi hún hrækt á þær og gert tilraunir til að rífa í hijab-kvennanna, þær hafi hringt á lögregluna en hún ekki séð tilefni til að koma á staðinn. en sagt að þeim væri velkomið að koma á stöðina daginn eftir. 

Mál af þessu tagi meira áberandi en áður

Eyrún Eyþórsdóttir, aðjúnkt í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri , stýrði áður þróunarverkefni tengdu rannsóknum á hatursglæpum hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir að atvikið geti talist hatursglæpur. „Ef tjáningin hefur falið í sér niðrandi orð eða smánun, jafnvel eitthvað til að valda ótta, ógna eða annað slíkt þá flokkast það klárlega undir hatursglæp.“ 

Hún segir mál af þessu tagi vera orðin meira áberandi, nokkur hafi ratað í fjölmiðla að undanförnu, ráðist hafi verið að íþróttamönnum og afgreiðslufólki verslana sem er dökkt á hörund. 

Ekki vitað hver veittist að konunum

Atvikið fyrir utan Hólagarð í gær er rannsakað sem hugsanlegur hatursglæpur og er komið inn á borð miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Einar Guðberg Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir rannsókn málsins á algeru frumstigi, skýrslutöku ekki lokið og ekki búið að skoða myndefni. Ekki liggi fyrir hvaða kona veittist að konunum og engin liggi undir grun. Upplýsingafulltrúi lögreglunnar hafði ekki tök á að taka saman tölulegar upplýsingar um tilvik á borð við þetta en Einar segir fátítt að tilkynningar af þessu tagi berist lögreglu.

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi