Rannsaka steingervinga á framkvæmdasvæði

01.08.2019 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd: Snæbjörn Guðmundsson
Meðlimir í náttúruverndarsamtökunum Ófeigi fundu steingervinga og steingerðar viðarleifar í hlíðinni þar sem vegurinn að Hvalárvirkjun á að liggja upp á Ófeigsfjarðarheiði. Stjórnarmaður í samtökunum segir að vitað sé um tvo aðra staði á sömu slóðum þar sem steingervingar gætu fundist. Forstjóri Náttúrufræðistofnunar segir að jarðfræðingar stofnunarinnar muni kanna svæðið eftir helgi en steingervingar eru friðaðir samkvæmt náttúruverndarlögum.

Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur og stjórnarmaður í Ófeigi, var einn þeirra sem fann steingervingana. Þeir fundust á svæðinu þar sem vegurinn yfir heiðina að Hvalárvirkjun á að liggja. Steingervingarnir eru svokallaðar trjáholur, för eftir steingerða trjáboli. Snæbjörn segir að líkast til séu steingervingarnir um tíu milljón ára gamlir. „Trjábolaförin myndast þegar hraun rennur yfir skóg, trjábolirnir falla en hverfa ekki strax og hraunið umlykur þá. Með tímanum eyðast trjábolirnir og eftir verður holrými.“

Jarðlög í Steingrímsfirði eru talin vera um átta til níu milljón ára en elstu jarðlögin, allt að 15 milljón ára gömul, finnast á Vestfjörðum að sögn Snæbjörns. Hann segir fundinn hafa mikið gildi því hérlendis sé ekki mikið af steingervingum. „Þetta er fágæti og þó maður finni trjáholur annars staðar þá eru þær ekki með sömu trjátegundir eða á sama aldri. Það hefur mikið rannsóknargildi að kanna steingervinga, til dæmis til að rannsaka loftslagsbreytingar því það er hægt að lesa margt úr jarðlögunum,“ segir Snæbjörn. „Þetta er ekki bara áhugaverður fundur heldur skiptir máli fyrir náttúrufræði á Íslandi.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: Snæbjörn Guðmundsson - Aðsend mynd
Trjáhola

Steingervingar verndaðir samkvæmt náttúruverndarlögum 

Samkvæmt 60. grein laga um náttúruvernd er óheimilt að losa eða fjarlægja steingervinga af fundarstað. Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar, segir í samtali við fréttastofu að jarðfræðingar frá stofnuninni muni fara vestur eftir helgi og kanna svæðið en hann segir að samkvæmt myndunum sé greinilega um steingervinga að ræða.

Jarðfræðingarnir verða að störfum í þrjá daga en Jón Gunnar segir að það gæti mögulega haft áhrif á framkvæmdir ef þarna finnast steingervingar. „Við erum búin að láta Vesturverk vita að við séum að fara að skoða þetta,“ segir Jón Gunnar. „Lögin eru skýr, það má ekki losa um þá í jarðlögum og ekki hrófla við þeim eða skemma því við erum fátæk af steingervingum hér á Íslandi og þeir segja ákveðna sögu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Snæbjörn Guðmundsson - Aðsend mynd
Steingerðar viðarleifar
Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi