Rannsaka peningaþvætti vegna dópframleiðslu

02.09.2019 - 23:00
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Lögregla rannsakar nú meint peningaþvætti í tengslum við umfangsmikla fíkniefnaframleiðslu í Borgarfirði og í Þykkvabæ. Fé og eignir fyrir tugi milljóna króna hafa verið kyrrsett eða haldlögð.

Héraðssaksóknari ákærði á fimmtudag þrjá menn fyrir að framleiða átta og hálft kíló af amfetamíni í sumarhúsi í Borgarfirði. Ásamt þremur til viðbótar eru þeir einnig ákærðir fyrir stórfellda kannabisræktun á Suðurlandi. Tveir hinna ákærðu, Einar Jökull Einarsson og Alvar Óskarsson, hlutu fyrir um áratug níu og hálfs og sjö ára fangelsisdóma í Pólstjörnumálinu, þar sem reynt var að smygla tugum kílóa af fíkniefnum sjóleiðis til Fáskrúðsfjarðar.

Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn segir að rannsóknin hafi verið tiltölulega flókin og margir hafi komið að henni. Reykjavíkurlögreglan hafi rannsakað málið ásamt lögreglunni á Suðurlandi og Vesturlandi.

„Það þarf að skýra ansi mikla peningagjörninga sem eru að eiga sér stað í þessum hópi og aðeins út fyrir hann líka. Þannig að mér reiknast svona til í fljótu bragði að við séum með ýmis verðmæti, húseignir, bíla, ýmsa fjármuni, lausafé og fleira, svona eitthvað, það er nú farið að slá upp í 100 milljónir held ég, sem eru með mismunandi þvingunarþætti á sér, eftir því hvers eðlis hlutirnir eru.“

Karl Steinar segir að peningaþvættisrannsóknin sé nokkuð langt komin. „Við erum að setja eins mikinn þunga í það og við getum. Það hins vegar tekur bara talsverðan tíma að púsla þessu öllu saman saman. Þetta eru flóknir fjármálagerningar sem er verið að gera og athyglisverðir fyrir margar sakir, og það er greinilega verið að leggja mikið á sig til að koma fjármunum í þann farveg að það líti út eins og þeirra sé löglega aflað.“

Karl Steinar segir að grunur sé um að fé hafi verið þvættað í gegnum atvinnurekstur en sagðist ekki geta tjáð sig meira um það.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi