Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rannsaka grindhvalahræin á morgun

Mynd með færslu
 Mynd: Þyrluþjónustan - RUV
„Við byrjum á lengdarmælingum og kyngreiningum á öllum dýrunum, þetta eru 52 dýr, skilst mér, þannig að það verður töluverð vinna við það,“ segir Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun. Sérfræðingar frá stofnuninni og Umhverfisstofnun hyggjast á morgun rannsaka grindhvalina 52 sem fundust dauðir í Löngufjörum í landi Litla-Hrauns á Snæfellsnesi í síðustu viku. Landhelgisgæslan flytur þá á staðinn. Að auki hyggjast sérfræðingarnir vinna viðvik fyrir Íslenska Reðasafnið.

Gott tækifæri til rannsókna

Gísli segir alltaf reynt að fara á staðinn og taka sýni þegar svona stóra vöðu rekur á land. „Það er mjög sjaldgæft að svona margir hvalir fari saman og þarna er tækifæri til að fá mælingar og sýni af mörgum dýrum á tiltölulega stuttum tíma,“ segir Gísli, „fyrst okkur líka bauðst þetta far með Landhelgisgæslunni þá náttúrulega þiggjum við það með þökkum.“   

Tekin vefjasýni úr flestum

Gert er ráð fyrir að sérfræðingarnir fái tvo tíma til að athafna sig í fjörunni á morgun. „Við byrjum á lengdarmælingum og kyngreiningum á öllum dýrunum, þetta eru 52 dýr, skilst mér, þannig að það verður töluverð vinna við það. Við tökum svo vefjasýni af helst öllum dýrunum sem við notum bæði til erfðarannsókna og rannsókna á fitusýrum, ísótópum og þess háttar.“ Hugsanlega verði svo magainnihald einhverra dýra rannsakað.

Örlög hvalanna ráðgáta

Gísli á ekki von á því að þessar rannsóknir varpi ljósi á það hvers vegna vöðuna rak þarna á land. Það hafi verið rannsakað í tvígang. „Það kom í sjálfu sér ekkert sérstakt í ljós í þeim rannsóknum en þetta er auðvitað mjög algengt með þessa tegund.“ 

Sýni og æxlunarfæri fjarlægð, annað fær líklega að vera

Við mælingar og sýnatöku bætist svo viðvik fyrir Íslenska reðasafnið, að færa því æxlunarfæri eins karldýrsins. Gísli segir það tiltölulega einfalda aðgerð. „Við tökum oft sýni fyrir söfn og aðra sem biðja okkur um ef það er ekki mikil auka vinna.  Við höfum gert það áður, það er einföld aðgerð í sjálfu sér.“ 

Ekki stendur til að fjarlægja hræin, heldur fær náttúran líklega að hafa sinn gang í Löngufjörum. Ákvörðunin er landeiganda. Fulltrúi Umhverfisstofnunar segir hræin ekki í alfaraleið og telur þau ekki valda óþægindum. Aðstæður verði þó skoðaðar betur á morgun til að fá staðfest hvort þetta sé rétt mat.