Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar tveggja manna sem frömdu rán í Gullsmiðjunni í Lækjargötu í Hafnarfirði síðdegis.
Ræningjarnir, sem voru grímuklæddir og ógnuðu starfsmanni með bareflum, brutu upp hirslur og höfðu á brott með sér umtalsverð verðmæti samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Þeir óku á brott á hvítum jepplingi, sem er talinn vera stolinn og á röngum skráningarnúmerum. Starfsmann Gullsmiðjunnar sakaði ekki, en honum var mjög brugðið, að því er fram kemur í frétt frá lögreglunni.
Lögreglan biður þá sem geta gefið upplýsingar um mennina og bílinn að hafa samband við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 112, eða með einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.