Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rammpólitísk skáldalæða gefur út ljóðabók

Mynd: Sæmundur bókaútgáfa / Sæmundur bókaútgáfa

Rammpólitísk skáldalæða gefur út ljóðabók

04.06.2019 - 16:28

Höfundar

„Nú mjálma ég af miklum krafti og marga speki, svo allir dáist að máli mínu og muni kjósa Jósefínu,“ er á meðal þess sem kötturinn Jósefína Meulengracht Dietrich yrkir í einum af sínum pólitísku ljóðum. Ljóðabók hennar, Jósefínubók, kemur út í haust á vegum Sæmundar bókaútgáfu og rennur ágóði af sölunni til styrktar Kattholti. Í bókinni er dýrt kveðið en Jósefína kemur inn á þjóðfélagsmálin og líf kattarins.

Jósefína Meulengracht Dietrich er læða á Akranesi en hún er skáldalæða og mannfræðingur. Læðan skrifaði nýlega undir samning um útgáfu Jósefínubókar en bókin kemur til með að innihalda eitt hundrað ljóð sem Jósefína hefur ort í gegnum tíðina. Útgefandi Jósefínu, Bjarni Harðarson, segist ekki efast um að ljóðin séu eftir Jósefínu sjálfa og hún yrki hjálparlaust.

„Það gæti enginn maður ort ljóðlínuna: Ég brosandi gekk út í blæinn og beint út í loft stóð mín rófa,“ bendir Bjarni á. Bjarni hefur sjálfur þekkt köttinn um hríð en hún býr á heimili bróður Bjarna á Akranesi.

„Hún flutti þangað fyrir um tíu árum en þá hafði hún lengi verið á hrakhólum eða þar til hún fékk skjól í Kattholti og flutti þaðan á þetta heimili. Mágkona mín er sú sem telst hafa fengið læðuna eða er skráð eigandi hennar. Svo er spurning hvort það sé yfirhöfuð hægt að eiga kött,“ segir Bjarni.

Jósefína ákvað sjálf að gefa ljóðin út til að styrkja Kattholt en þangað renna bæði höfundalaun óskert og hagnaður af bókinni. „Það var alveg skýr vilji hjá henni fyrir því en hún hefur sjálf ekki þurft á því að halda að safna veraldlegum eigum eins og peningum.“

Jósefína skrifaði undir samning við útgáfuna á dögunum, af því tilefni fór fram hátíðleg athöfn en skáldið fékkst sjálft ekki til að mæta. „Hún sendi samt þangað fulltrúa sinn enda ekki mikið fyrir sviðsljósið sjálf eða löng ferðalög. Hún ferðast um næsta nágrenni sitt en svo fylgist hún bara með í fjölmiðlum.“

Jósefína er sjálf með Facebooksíðu þar sem hún birtir ljóð sín, svo hægt er að fylgjast með henni og kveðskap hennar þar. Jósefínubók fer í prentun á næstu vikum og kemur í búðir í haust. 

Rætt var við Bjarna Harðarson í Mannlega þættinum en innslagið má hlýða á í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Pistlar

Borg sem er stjórnað af köttum

Tónlist

Tónlist fyrir ketti

Menningarefni

Hver vill eignast gamlan kött?