Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ragnar Þór Ingólfsson kjörinn formaður VR

14.03.2017 - 13:49
Mynd með færslu
Ragnar Þór Ingólfsson Mynd: Dögun
Ragnar Þór Ingólfsson var kosinn formaður VR með tæpum 63% atkvæða. Ólafía B. Rafnsdóttir, fráfarandi formaður, hlaut 37% atkvæða. Á kjörskrá voru alls 33.383 og 5.706 greiddu atkvæði. Kosningaþátttaka var því 17,09%.

Þetta kemur fram á heimasíðu VR. Þá var kosið til stjórnar VR til næstu tveggja ára.

Fimm formenn frá hruni

Mikið hefur gengið á í stjórnarkjöri hjá VR á árunum eftir hrun. Ragnar Þór verður sá fimmti til að fara með formennsku frá 2008. Gunnar Páll Pálsson var formaður VR í hruninu en varð fyrir gagnrýni vegna stjórnarsetu sinnar í Kaupþingi fyrir hrun. Hann féll í formannskjöri 2009, með fæst atkvæði þriggja frambjóðenda. Þá var Kristinn Örn Jóhannesson kosinn nýr formaður með 42 prósent atkvæða.

Tveimur árum síðar féll Kristinn í formannskjöri, með næstfæst atkvæði sjö frambjóðenda. Sigurvegari var Stefán Einar Stefánsson með aðeins 21 prósent atkvæða. Hann laut í lægra haldi fyrir Ólafíu B. Rafnsdóttur tveimur árum síðar. Hún hlaut 76 prósent atkvæða en Stefán Einar 24. Ólafía er eini formaður VR frá hruni til að gegna embætti í tvö kjörtímabil, en féll svo eins og forverar sínir í stjórnarkjöri.

larao's picture
Lára Ómarsdóttir
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV