Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ragnar Bjarnason látinn

Mynd: RÚV / RÚV

Ragnar Bjarnason látinn

26.02.2020 - 12:02

Höfundar

Ragnar Bjarnason tónlistarmaður er látinn. Hann var 85 ára. Ragnar fæddist 22. september 1934, sonur Bjarna Böðvarssonar, tónlistarmanns og fyrsta formanns FÍH, og Láru Magnúsdóttur húsmóður sem söng bæði í Dómkirkjukórnum og opinberlega í útvarpinu með hljómsveit eiginmannsins. Ragnar var einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar, dáður af ungum sem öldnum. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi í gærkvöldi.

Ragnar fékk trommusett í fermingargjöf og stofnaði tríó sem spilaði í Hreðavatnsskála sumarið eftir.

Hann og félagar hans spiluðu síðar á Akureyri og þar byrjaði Ragnar að syngja þó svo að hann væri trommuleikari.

Hann söng á móti Sigurði Ólafssyni í útvarpssal, með hljómsveit föður síns, þegar hann var 16 ára og söng inn á fyrstu 78 snúninga plöturnar árið 1954. Meðal laga sem hann söng var Stína ó, Stína, eftir Árna Ísleifsson sem Tónika útgáfan gaf út en Svavar Gests og Kristján Kristjánsson, stjórnandi KK sextettsins, starfræktu þá útgáfu.

Ragnar byrjaði ungur að aka bíl og varð leigubílstjóri um leið og hann hafði aldur til, tók þar við af föður sínum sem ók leigubíl auk þess að stjórna eigin hljómsveit.

Hann söng með Hljómsveit Svavars Gests 1955-56 og var boðið að syngja með KK sextettinum árið 1957, þegar Sigrún Jónsdóttir var veik. Hann kom síðan fram með hljómsveitinni næstu árin og þau Sigrún voru með svokallað „floorshow“ og voru á meðal fyrstu söngvara á Íslandi sem létu að sér kveða á því sviði.

Mynd: Skjáskot / RÚV

Árið 1959 hætti Ragnar í KK sextettinum og fór að syngja með Hljómsveit Björns R. Einarssonar.

Hann fór til Danmerkur árið 1960 til að syngja inn á nokkar plötur fyrir Íslenzka tóna, þar á meðal hið vinsæla lag Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig og lagið Komdu í kvöld eftir Jón Sigurðsson.

Hann flutti til Danmerkur árið 1962 með vini sínum, bassaleikaranum Kristni Vilhelmssyni, en þeir störfuðu um tíma með sænska píanistanum Lennart Persson. Þeir fluttu tónlist víðs vegar um Norðurlöndin, Ragnar spilaði á trommur og söng. Á þessum tíma kynntist hann annarri eiginkonu sinni, Helle Birthe Bjarnason.

Hann sneri heim til Íslands þegar Hljómsveit Svavars Gests varð húshljómsveit í Súlnasal Hótel Sögu 1964, og tók við sem hljómsveitarstjóri í Súlnasal síðsumars 1965 þegar Svavar hætti með hljómsveitina og sneri sér alfarið að hljómplötuútgáfu. Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar var húshljómsveit á vetrum í Súlnasal í 19 ár.

Árið 1972 stofnaði Ragnar Sumargleðina sem fór um landið sumar eftir sumar um árabil. Hann samdi alls konar skemmtiefni sem liðsmenn hljómsveitarinnar fluttu og síðan var slegið upp dansleikjum.

Ragnar söng inn á fjölmargar hljómplötur á þessum árum, kom oft fram í útvarpi og eftir að sjónvarpið kom til sögunnar voru hann og hljómsveit hans reglulegir gestir á skjám landsmanna.

Ragnar hætti með hljómsveit sína eftir 19 ár á Hótel Sögu, gerðist sölumaður hjá Fiat og starfaði við það um árabil. Hann rak einnig sjoppu og bílaleigu, var útvarpsmaður á Aðalstöðinni og sitthvað fleira.

Hann var nánast hættur að syngja um miðjan tíunda áratuginn en byrjaði þá af fullum krafti aftur. Hann gaf til að mynda út nýja plötu árið 2004 sem fékk frábærar viðtökur og hefur reglulega haldið tónleika, þar á meðal vel heppnaða afmælistónleika. Hann hefur verið vinsæll skemmtikraftur og söngvari mörg undanfarin ár, sungið með Milljónamæringunum, Stórsveit Reykjavíkur, eigin hljómsveit og tekið upp með Blaz Roca, Jóni Jónssyni, Guðrúnu Gunnarsdóttur og mörgum öðrum, að ógleymdri Lay Low, en saman sungu þau lagið Þannig týnist tíminn eftir Bjartmar Guðlaugsson sem sjónvarpsáhorfendur völdu óskalag þjóðarinnar.

Þegar sýningin Elly var frumsýnd í Borgarleikhúsinu kom Ragnar fram að sýningunni lokinni og söng tvö lög með Katrínu Halldóru Sigurðardóttur.

Heimildamyndin Með hangandi hendi, sem Árni Sveinsson gerði ásamt fleira fólki var frumsýnd 29. október 2010. Þar rifjuðu Ragnar og nokkrir samferðamenn og konur upp sitthvað frá farsælli ævi hans.

Ragnar var alltaf léttur í skapi og með bros og gamanyrði á vör og virtist taka öllu með miklu jafnaðargeði. Hann var einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar og dáður af ungum sem öldnum.

Ragnar hélt tvenna tónleika í Hörpu í lok síðasta árs í tilefni af áttatíu og fimm ára afmæli sínu sem voru hans síðustu tónleikar. Eftirlifandi eiginkona Ragnars er Helle Birthe Bjarnason. Hann lætur einnig eftir sig uppkomin börn.

Mynd: RÚV / RÚV
Ragnar Bjarnason kom fram með Lay Low í söfnunarþætti á RÚV í nóvember.