Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Rafstöðvar rjúka út eins og heitar lummur

12.12.2019 - 13:38
Mynd með færslu
 Mynd: mynd af internetinu
Rafstöðvar rjúka út á Norðurlandi. „Annað hvert símtal í dag hefur verið um rafstöðvar,“ segir sölustjóri Þórs hf. á Akureyri. Rafmagnsleysi og flökt undanfarna tvo daga hefur haft mikil áhrif á atvinnulíf og ollið tjóni víða.

Elvar Jónsteinsson, sölustjóri Þórs á Akureyri, segir rafstöðvar rjúka út eins og heitar lummur í dag. „Þær seljast alveg frá Dalvík og austur á Kópasker.“ Hann segir góðan lager hafa verið til en það hafi gengið vel á hann í dag. Enn sé til nóg af rafstöðvum í öllum stærðum og hann er bjartsýnn á að þær dugi í dag og á morgun. 

Hann segir hljóðið í viðskiptavinum nokkuð gott. Vandræðin séu misjöfn, alveg frá því að þurfa hita á sumarhúsið í það að koma mjaltaþjónum í gang. Sagt hefur verið frá því að bændur hafa þurft að handmjólka kýr þar sem mjaltabúnaður krefst rafmagns. Hann segir annað hvert símtal í dag hafa snúist um rafstöðvar.

Sömu sögu er að segja frá Byko, Kjartan Guðmundsson, deildarstjóri í verkfæradeild Byko á Akureyri, segist eiga eina 2,5 KW rafstöð eftir. Hann hafi ekki átt mikið til á lager en hann sé búinn að selja 5 í dag. Hann vissi ekki hvort von væri á sendingu norður en efaðist um að það væri mikið meira til fyrir sunnan. Ef það kæmi sending þá kæmi hún samt ekki fyrr en eftir helgi. Hann segir þá sem hafi verslað við hann í dag fyrst og fremst dapri yfir stöðunni sem upp sé komin.