Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Rafrettur bannaðar í MH

14.01.2016 - 12:03
Mynd með færslu
 Mynd: flickr
Rafrettur hafa verið bannaðar innan Menntaskólans í Hamrahlíð eins og annað tóbak. Þetta kemur fram í bréfi sem Lárus H. Bjarnason, rektor skólans, hefur sent nemendum skólans og foreldrum þeirra.

Í bréfinu kemur fram að einhver brögð hafi verið að því að nemendur noti rafrettur innan skólans. Í rafrettum sé nikótín, eitt virkasta efnið í tóbaki. Neysla þess sé ekki aðeins skaðleg þeim sem þess neyta heldur sömuleiðis þeim sem anda að sér nikótínreyk eða nikótíngufu. 

„Ég hef aðeins rætt þetta við stjórn nemendafélagsins og þau staðfesta að það væri eitthvað um að þetta sæist og voru hlynnt því að þessi regla væri sett,“ segir Lárus. Hann geti ekki fullyrt um það hvort MH sé fyrsti skólinn til að stíga þetta skref. Hann muni ekki eftir þessu í umræðum á fundum skólastjóra. 

Með því að banna rafrettur í skólanum sé verið að bregðast við athugasemdum sem borist hafi meðal annars frá foreldrum. „Við höfum fengið fáeinar athugsemdir um að einstaka maður væri að draga þetta upp innanhúss og valda ama. Dæmi eru um að þetta komi illa við nemendur með ofnæmi. Það er erfiðara að bera kennsl á þetta en reykingar. Það dregur enginn upp sígarettu lengur innanhúss en auðveldara er að stinga rafrettu niður þegar fullorðinn nálgast.“

Lárus segir að ákveðið hafi verið að stíga þetta skref til að það færi ekki milli mála að notkun rafretta væri bönnuð. „Það hafa einhverjir skákað í því skjóli að þetta væri ekki bannað og því mætti nota þetta.“

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV