
Raforkukerfið enn laskað síðan í desember
Búið er að fara yfir mönnun á öllum landsvæðum, segir Helga og vel hefur verið farið yfir stöðuna á varaafli og staðsetningu á færanlegum vélum. Allir starfsmenn í vinnuflokkum Rarik verða á bakvakt og tilbúnir þegar veðrið skellur á.
Raforkukerfið er enn að einhverju leyti laskað síðan í óveðrinu í desember og því er fólk meira á tánum. Það gæti því þurft minna til að röskun verði á dreifingu rafmagns. Sums staðar hefur verið gert við til bráðabirgða og það hefur gerst eftir jól að þegar farið hefur að blása hefur komið í ljós eitthvað sem þarf að laga á ný.
Viðbúnaðurinn er sérstaklega mikill á Suður- og Suðausturlandi, Vesturlandi og Norðvesturlandi. Allt landið er undir og því ekkert landsvæði sem ekki þarf að hafa áhyggjur af, að sögn Helgu.
Neyðarstjórn Landsnets lýsti í morgun yfir óvissuástandi vegna óveðursins. Þar hafa allar viðbragðsáætlanir verið virkjaðar og hætta er á margháttuðum truflunum í flutningskerfinu vegna aftaka vinds af austri, þar sem ísing og selta sett strik í reikninginn.