Rafmagnstruflanir og snjóflóðahætta á Vestfjörðum

11.12.2019 - 09:43
Myndir teknar á Ísafirði 10. desember 2019.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Rafmagnstruflanir eru víða á Vestfjörðum en þó er rafmagn á öllum þéttbýlisstöðum. Súðarvíkurvegi og Flateyrarvegi hefur verið lokað vegna snjóflóðahættu. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar er óvíst hversu lengi hættan varir. Ekkert rafmagn kemur frá landskerfinu inn á Vestfirði og því þurfa Vestfirðingar að sjá sér sjálfir fyrir rafmagni, segir Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða.

Skaplegt veður er nú á Ísafirði og ekki hefur komið til neinna vandræða í nótt eða í morgun, segir Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum. Björgunarsveitir hafa lítið þurft að vera á ferðinni. Lítið er af ferðamönnum á Vestfjörðum enda hefur verið ófært yfir heiðar að undanförnu. Hlynur segir að fólk hafi tekið mark að aðvörunum sem gefnar voru út. 

Rafmagnstruflanir víða

Elías segir að rafmagn hafi ekki farið út á norðanverðum Vestfjörðum. Þó hafi verið bilum í um tíu mínútur í Súgandafjörður. Rafmagnslaust hafi verið á sunnanverðum Vestfjörðum en rafmagn hafi þó komist fljótt á að nýju.

Strax í gærmorgun var ákveðið að keyra varaaflsstöð í Bolungarvík og hefur hún verið í gangi síðan. Elías segir að stöðin hafi haldið norðanverðum Vestfjörðum á rafmagni. 

Byggðalínan sem tengir Vestfirði við meginflutningskerfi raforku er úti sem stendur og hefur dottið út nokkrum sinnum. Því er keyrt á varaafli í Bolungarvík, Hólmavík, Drangsnesi og Reykhólum.Þá er rafmagnslaust innst í Ísafjarðardjúpi að hluta. Einnig er rafmagnslaust í Árneshreppi og Gufudalssveit. Einnig hefur verið rafmagnslaust í Önundarfirði.

Myndir teknar á Ísafirði 10. desember 2019.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV

Mjög lítið  hefur verið um rafmagnsleysi á þéttbýlisstöðum.

Ekkert rafmagn frá landskerfi

Elías segir að mikill óróleiki hafi verið á landskerfinu og hefur það valdið vandræðum á Vestfjörðum og víðar. Ekkert rafmagn kemur frá landskerfinu inn á Vestfirði.

Ófærð

Ófært er um alla Vestfirði. Þó er fært innanbæjar á Ísafirði. Búið er að opna veginn milli Bíldudals og Brjánslækjar. Þá er blásari farinn af stað í Súgandafirði, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Skoða á veginn um Súðavíkurhlíð og Flateyri í birtingu.

Fréttastofan tekur feginshendi við myndum og myndskeiðum af veðri og vandræðum, einkum ef myndirnar eru teknar þannig að þær eru meira á breiddina en hæðina, þ.e.a.s. ef símanum er snúið á hlið en ekki upp á rönd.

Myndir teknar á Ísafirði 10. desember 2019.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV