Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rafmagnið í Eyjum hangir á bláþræði

14.02.2020 - 07:42
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd: Tígull
Mjög lítið þarf til svo að rafmagnið detti út í Vestmannaeyjum, þar sem nú er stjörnuvitlaust veður að sögn Ívars Atlasonar hjá HS Veitum. Búið er að ræsa varaafl til öryggis til þess að tryggja stöðugan rekstur. Það dugir þó ekki til þess að keyra allt rafmagn í kaupstaðnum.

Í gær var haft samband við öll fyrirtæki í Eyjum og þau beðin um að keyra niður alla starfsemi eins og mögulegt er í dag. Aðeins þá væri möguleiki að halda rafmagninu inni án þess að treysta þurfi á varaaflið. Ívar segir að fyrirtækin hafi farið að þeim tilmælum, sem geri starf dreififyrirtækja eins og HS Veitna mun auðveldara. 

Ívar segir að rafmagnið hafi haldist inni í nótt, en það sé nú algjörlega á mörkunum. Það sé heppilegt að ekki sé vertíð í gangi í Eyjum núna, svo fiskvinnslur gátu keyrt niður rafmagnsþörf sína.

Ef keyra þarf á varaafli er það hins vegar mjög takmarkað, þar sem aðeins eru sjö ljósavélar til taks og er það í raun sama staða og síðan í eldgosinu 1973, að sögn Ívars. Miðað við raforkuþörf í dag þurfi fleiri vélar til þess að viðhalda varaafli ef til þess kemur.