Rafmagn víða fengið með varaafli

16.12.2019 - 10:48
Mynd með færslu
 Mynd: RARIK - RÚV
Rafmagn er víðast hvar komið á en víða er það fengið með varaafli. Unnið er að viðgerð, en ljóst að einhverjir dagar munu líða áður en allt verður komið í samt lag. Selta veldur vandræðum víða.

Rarik biður notendur sem tengdir eru varaafli að spara rafmagn eins og kostur er. Ljóst er að það mun taka nokkra daga að gera við það sem aflaga fór í veðurhamnum í síðustu viku og því víða keyrt á varaafli. Rafmagnslaust varð í nótt og snemma í morgun þegar spennistöðin í Hrútatungu sló út. Samkvæmt upplýsingum frá Rarik er staðan þesssi núna:

Norðausturhornið:
Enn eru keyrðar varaaflsvélar á Raufarhöfn, Þórshöfn og Bakkafirði. Allir á þessu svæði eru með rafmagn. Bilanir eru á línu í Þistilfirði og unnið er að viðgerð.

Þingeyjarsveit:
Bilun er í Reykjadal, en allir eru með rafmagn.

Fnjóskadalur:
Einhverjar bilanir en þeir sem þurfa hafa varaafl. Fnjóskadalur varð rafmagnslaus í nótt, fékk að hluta til rafmagn aftur nú undir morgun. Enn eru nokkrir rafmagnslausir í norður Fnjóskadal.

Grýtubakkahreppur:
Lína frá Nolli að Sveinbjarnargerði er öll niðri og varaafl er keyrt þar sem þörf er á.

Árskógssandur:
Vegna bilunar á Dalvíkurlínu er rafmagn nú tekið frá Rangárvöllum sem veldur lágri spennu og lélegum spennugæðum.

Hrísey:
Keyrt er á varaafli vegna bilunar á Dalvíkurlínu.

Svarfaðardalur:
Allur Svarfaðardalur er kominn með rafmagn fyrir utan þrjár spennistöðvar þar sem ekki er föst búseta. Keyrt er á varaafli frá Dalvík.

33 kV lína frá Dalvík til Árskógsands: Línan er slitin og mikið sliguð. Mikill halli er á staurum.

Dalvík:
Búið er að tengja tiltækt varaafl á Dalvík. Varðskipið Þór er að framleiða fyrir alla almenna notkun.

Siglufjörður/Ólafsfjörður:
Komið er rafmagn frá Skeiðsfossvirkjun, allir almennir notendur með rafmagn.

Skagafjörður:
Rafmagn er komið á austanverðan Skagann norður af Selnesi en áfram er unnið að viðgerð. Sauðárkrókslína leysti út í nótt og rafmagnslaust varð á Sauðárkróki. Allir eru komnir með rafmagn aftur.

Svartárdalur/Blöndudalur:
Rafmagnslaust er í Svartárdals fyrir innan bæinn Gil og í Blöndudal. Ástæða er líklega selta.