Rafmagn fór aftur af Bakka

15.12.2019 - 01:42
Innlent · Húsavík · Norðurland · PCC
Neyðarskorsteinar opnuðust 27. febrúar 2019 vegna stíflu í rykhreinsivirki. Reyk og lykt lagði frá verksmiðjunni.
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Rafmagn fór af kísilveri PCC á Bakka við Húsavík í gærmorgun og var þar alveg rafmagnslaust til klukkan rúmlega þrjú eftir hádegi. Þá fékk verksmiðjan heimild Landsnets til að taka upp álag og gangsetja annan tveggja ofna sinna á ný. Í færslu á Facebook-síðu PCC Bakka segir að afl hafi farið af ofnum verksmiðjunnar vegna bilunar í spennivirki Landsnets. Neyðarskorsteinar séu því opnir og ofnar að kólna, og því geti fólk orðið vart við lykt.

Er bilunin rakin til óveðursins fyrr í vikunni. Vonast er til að viðgerð ljúki sem fyrst. Á heimasíðu Landsnets má svo sjá að báðir ofnar PCC Bakka hafi leyst út klukkan 7.23 að morgni laugardags, og að tæpum átta klukkustundum síðar, klukkan 15.06, hafi verksmiðjan fengið heimild til að taka upp álag og gangsetja einn ofn. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi