Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Rafmagn fór af vegna eldingar

15.02.2020 - 17:53
Innlent · Landsnet · rafmagnsleysi · RARIK · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd: Guðmundur Bergkvist
Ekki er lengur þörf á að skammta rafmagn á Suðurlandi, en nokkuð víðtækar rafmagnstruflanir hafa verið eftir óveðrið í gær. Eldingu laust niður í leiðara í línu Landsnets.

Rafmagnstruflanir vegna óveðursins í gær héldu áfram á Suðurlandi í dag. Notendur austan Þjórsár voru beðnir um að spara rafmagn og skerðing á rafmagni á Suðurlandi og til Vestmannaeyja stóð vel fram yfir hádegi, eða þangað til tókst að koma Hellulínu Landsnets aftur í rekstur. Vegna veðurs seinkar frekari viðgerðum hjá RARIK á Suðurlandi og eins var vart við rafmagnstruflanir á Vestfjörðum. 

Eldingu laust niður í Prestbakkalínu, milli Sigöldu og Hóla við Hornafjörð, þar sem leiðari skaddaðist. Það olli straumleysi um tíma en Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir að línan hangi inni og seinna verði farið að gera við. Viðgerðarflokkar Landsnets eru enn að finna brotnar stæður í Hvolsvallalínu eftir óveðrið í gær.