Rafmagn fór af nær öllum Vestfjörðum

23.01.2020 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Nær allir Vestfirðir urðu rafmagnslausir þegar Mjólkárlína, Breiðadalslína og Ísafjarðarlína slógu út rétt fyrir hádegi. Í fyrstu var aðeins rafmagn á Patreksfirði og hluta Bíldudals en rafmagnslaust annars staðar. Undanfarið hefur tekist að koma á rafmagni á fleiri stöðum á Vestfjörðum.

Rafmagnið fór af rétt fyrir klukkan tólf.

Frétt uppfærð klukkan 13:51: Vegna seltu þarf að hreinsa spennuvirki á Patreksfirði. Á meðan að vinna fer fram þarf að taka út rofa fyrir jarðsteng Barðaströnd og Rauðasands- og Kollsvíkurlínu og verður þar með rafmagnslaust á sveitum í kringum Patreksfjörð. Áætlað er að þetta taki um tvo tíma, að því er segir á vef Orkubús Vestfjarða.

Frétt uppfærð klukkan 13:02: Rafmagnsleysi er í Önundarfirði, í Tálknafirði og á hluta Eyrarinnar á Ísafirði. Aðrir staðir á Vestfjörðum eru annaðhvort á varaafli eða tengdir við byggðar, að því er segir í tilkynningu á vef Orkubús Vestfjarða.

Frétt uppfærð klukkan 12:50: Rafmagn er að koma á sunnanverða Vestfirði, samkvæmt tilkynningu frá Landsneti klukkan 12:43. Rafmagn er komið á Vesturlínu um Mjólká á tengivirkið á Keldeyri. 

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri á Ísafirði, sat á rafmagnslausri skrifstofu sinni þegar fréttastofa náði tali af honum. Þar var rafmagnslaust svo langt sem hann sá. 

Guðmundur Kristjánsson, hafnarstjóri á Ísafirði, sat á hafnarstjórnarfundi í stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði í hádeginu. „Það háir okkur að það er ekkert rafmagn en við erum auðvitað ekki að fremja nein myrkraverk þótt við tölum saman í skugga,“ sagði Guðmundur hafnarstjóri í hádegisfréttum RÚV.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, sagði í hádegisfréttum að unnið væri að því að byggja upp kerfið. Hún sagði að það tæki ekki langan tíma, að þetta tæki vonandi ekki einhverja klukkutíma.

Á Þingeyri fór rafmagnið af um hálf 12 en það er komið aftur á. Ljós blikkuðu um korteri síðar en fór svo alveg af. FM-sendingar útvarpsins náðust ekki en útvarp náðist um langbylgju. Rafmagn komst aftur á á Þingeyri í hádeginu.

Í upphaflegri gerð fréttarinnar sagði að tekist hefði að koma á rafmagni í Bolungarvík og á Ísafirði og byggði á upplýsingum frá Landsneti. Hið rétta er að þar er enn rafmagnslaust. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Leiðrétt 14:21 Við uppfærslu fréttarinnar víxluðust upplýsingar þannig að sagt var að rafmagnslaust hefði verið á Patreksfirði en rafmagn á Tálknafirði. Hið rétta er að rafmagnslaust var á Tálknafirði en Patreksfirðingar og nágrannar höfðu rafmagn.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi