Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rafbílar losi fjórfalt minna en aðrir bílar

03.07.2019 - 12:54
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Rafbílar losa fjórfalt minna af gróðurhúsalofttegundum, á líftíma sínum, en bensín- og dísilbílar, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Orku náttúrunnar. Framkvæmdastjórinn segir jákvætt að geta kvatt niður mýtur um rafbíla.

Skýrslan er hugsuð sem svar við einni af fjölmörgum spurningum sem rafbílakaupendur spyrja sig: Er betra, með tilliti til losunar koltvíoxíðs, að keyra rafbíl frekar en bensín- eða dísilbíl? Orka náttúrunnar lét gera skýrsluna fyrir sig og afhenti umhverfisráðherra. Orka náttúrunnar hefur verið leiðandi í rafbílavæðingu hér á landi og rekur flestar hleðslustöðvar á landinu.

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar segir niðurstöðurnar skýrar. „Niðurstaðan var sú að keyra um á rafbíl á Íslandi er betra, með tilliti til koltvíoxíðs, heldur en að keyra um á bensín eða dísilbíl. Það er örlítið meiri losun við framleiðslu á rafbílum af koltvíoxíði en þegar við keyrum á rafbílum með því að nota endurnýtanlegt rafmagn eins og við gerum á Íslandi, þá er losun rafbíls yfir líftímann rúmlega fjórum sinnum minni.“

Í skýrslunni er miðað við að bílunum sé ekið 220.000 kílómetra. Þar er ekki horft til losunar gróðurhúsalofttegunda við förgun rafbíla en kemur þó fram að losunin væri aldrei meira en 2% af heildaráhrifum. „Næsta skref er það að skoða á Íslandi, bæði endurvinnsluaðilar, bílasalar og aðrir sem koma að því hvernig við ætlum að endurnýta rafhlöðurnar eða farga þeim.“ segir Berglind. 

Hún segir að margt smátt geri eitt stórt og því skipti svona hlutir máli. „Auðvitað er það þannig að það er betra að keyra ekki bíl yfirhöfuð, það er betra að hjóla eða ganga og nota strætó en ef að fólk ætlar að keyra um á bíl þá er betra að keyra um á rafbíl heldur en jarðefna- og eldsneytisbíl.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV