Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ræsa ker sem slökkt var á vegna skæðs ljósboga

31.08.2019 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Búið er að ræsa tvö ker í álverinu í Straumsvík, sem hefur verið slökkt á síðan í júlí eftir að svokallaður ljósbogi myndaðist í kerskálanum. Slökkt var á 160 kerjum af öryggisástæðum. Upplýsingafulltrúi álversins fullyrðir að ekki sé lengur nein hætta á ferðum.

Þriðjungur framleiðslu álvers Rio Tinto í Straumsvík hefur legið niðri síðan í sumar. Slökkt var á öllum kerjum í einum af þremur kerskálum álversins eftir að svokallaður ljósbogi myndaðist í einu kerinu. Ljósboga svipar til eldingar, nema hann er miklu öflugri. Áætlað er að endurræsa kerin í áföngum og til stóð að hefja endurræsingu í september. Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, segir ánægjulegt að hægt hafi verið að hefja ferlið á undan áætlun. „Þetta eru 160 ker alls og við erum að ræsa venjulega nokkur ker á dag, þannig að það má gera ráð fyrir að ferlið í heild sinni geti tekið nokkra mánuði.“
 
Ekki liggur fyrir hversu mikið fjárhagslegt tjón er vegna skertrar starfsemi, en líklega hleypur það á milljörðum. „Þetta hefur auðvitað áhrif á reksturinn, þannig að það er framleiðslutap af kerskálanum á meðan þeir liggja niðri en við erum vel búin til þess að mæta því gagnvart okkar viðskiptavinum þannig að áhrif á þá eru veruleg, en það er ekki hægt að segja til um það á þessari stundu hvert tjón af þessu er,“ segir Bjarni Már.

Álverið í Straumsvík verður opið almenningi í dag vegna 50 ára afmælis álframleiðslu á Íslandi. Bjarni segir öryggi gesta og starfsmanna tryggt. „Það er engin hætta á ferðum og hér er mjög vel búið um hnútana þannig að fólk getur komið í heimsókn. Starfsfólk er hérna alla daga og öryggið er hér í algerum forgangi,“ segir Bjarni Már.