Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Rækta mjölorma heima hjá sér

09.07.2018 - 09:35
Par á Húsavík ræktar mjölorma í tilraunaskyni heima hjá sér. Þau vilja framleiða fóður fyrir fiskeldi úr skordýrum.

Christin Irma Schröder og Torsten Ullrich sigruðu í hugmyndakeppni Eims, um nýtingu jarðvarma til framleiðslu matvæla. Hugmyndin kom upp þegar þau voru á ferð um landið og veltu fyrir sér auðlindum Íslands og hvernig mætti nýta þær betur. Þau búa og starfa á Húsavík og eru nú að rækta mjölorma heima hjá sér í tilraunaskyni.

„Við ætlum að framleiða fiskifóður fyrir fiskieldi úr skordýrum af því það eru margar tegundir af skordýrum til, sem maður getur notað í þetta. Það fer eftir því hvað markaðurinn vill, þú getur stillt næringargildið að þessu, með því að velja rétta tegund af skordýrum," segir Christin. 

Hún segir kostnað við fóður í fiskeldum of háan og taka of mikinn toll af hafinu, þar sem stór hluti af fæði í fiskeldum er úr fiski. Skordýr hafi svipað næringargildi en séu mun ódýrari og umhverfisvænni leið. 

Jarðvarmi nýtist í framleiðsluferlinu, þar sem skordýrin þurfi hita til að dafna. Christin og Torsten fengu tvær milljónir í verðlaunafé og eru nú að vinna að næstu skrefum verkefnisins. Þau vilja stofna fyrirtæki og hefja ræktun. Framleiðsluferlið er nánast fullmótað.

„Við viljum búa til holu og nota jarðvarma til að hita hana og útbúa þannig stöðug skilyrði, hitastig og raka. Síðan viljum við skipta upp vaxtarferil skordýranna og með því að nota sjálfvirkar fóðurvélar reynum við að fá eins mikinn afrakstur og hægt er," segir Torstein um hvernig þau sjái framleiðsluferlið fyrir sér. 

evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður