Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ræðst í dag hvort Herjólfur siglir á morgun

17.07.2019 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Síðar í dag verður tekin ákvörðun um hvort nýr Herjólfur fer í sína fyrstu áætlunarferð til Vestmannaeyja seinnipartinn á morgun. Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf. segir prufusiglingar og mátun hafa gengið vel en að það hafi þurft að stilla brýr af. 

Prófanir í dag

„Við höfum verið að sigla í dag og í gær og munum halda því aðeins áfram, tökum svo stöðuna seinni partinn í dag eða í kvöld. Þannig að það sem búið er að prófa kemur ágætlega út og við erum komin með ágæta sýn á þetta. Við tökum bara stöðuna í kvöld hvort áætlanir okkar standist og við getum sett þann nýja í rekstur á morgun, seinnipartinn,“ segir Guðbjartur Ellert. 

Lengja þurfti ökubrú í Vestmannaeyjum

Hann segir að það hafi þurft að stilla af ökubrýr. „Við höfum sett okkur það markmið að geta verið með báðar ferjurnar undir, þurfa ekki að gera miklar breytingar á milli skipa ef svo ber við. Þetta er bara fínstilling á því sem við erum að gera. Brúin í Vestmannaeyjum er 14 metrar en brúin í Landeyjahöfn 19 metrar þannig að það er aðeins munur á milli þeirra. Við þurfum bara að stilla þetta af þannig að bæði skipin geti gengið upp á þetta.“

Brúin í Vestmannaeyjum var lengd. „Síðan þarf að passa afstillingu á landgöngubrúm þannig að þær gangi líka upp á rampana þar sem fólk gengur inn og út. Þetta er bara fínstilling og við sjáum bara til hvað dagurinn í dag gefur okkur,“ segir Guðbjartur.  

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV