Ræðir mál Hauks við tyrkneskan ráðherra

24.06.2018 - 18:07
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ræðir mál Hauks Hilmarssonar við efnahagsráðherra Tyrklands á morgun. Þeir hittast á stuttum tvíhliða fundi fyrir árlegan ráðherra fund EFTA sem fer fram á Sauðárkróki.

Nihat Zeybekci, efnahagsmálaráðherra Tyrklands, er staddur hér á landi til þess að undirrita uppfærðan fríverslunar samning við EFTA. 

Áður en árlegur ráðherrafundur EFTA hefst munu Guðlaugur Þór og Zeybekci ræða saman sín á milli. „Við munum ræða meðal annars stöðu mannréttindamála í landinu. Einnig mál Hauks Hilmarssonar.  Ég hef tekið þau mál upp við fleiri ráðherra, eins og menn þekkja,‘‘ sagði Guðlaugur Þór í samtali við fréttastofu.