Ræddu norðurslóðir og málefni hinsegin fólks

04.09.2019 - 20:32
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ræddu málefni norðurslóða, kynjajafnrétti og stöðu hinsegin fólks á fundi sínum í kvöld. Katrín tók fram að jafnrétti kynjanna og réttindi hinsegin fólks væru lykilatriði í stefnu ríkisstjórnarinnar. „„Hann fór yfir þau mál frá sínu sjónarhorni og sérstaklega jafnréttismálin,“ sagði Katrín í Kastljósi í kvöld. Ekkert leyndarmál væri að hún og varaforsetinn stæðu ekki á sama stað í pólitík.

Upphaflega átti fundurinn að hefjast korter í sjö en það drógst  á langinn þar sem Katrín var að koma með flugi frá Kaupmannahöfn eftir að hafa ávarpað þing Norrænu verkalýðssamtakanna í Malmö.  Pence þakkaði Katrínu sérstaklega fyrir að gefa sér tíma til að ræða við hann. 

Fundur þeirra tveggja rataði í heimspressuna þegar flest benti til að þau myndu alls ekki hittast og var það sett í samhengi við deilur Dana og Bandaríkjamanna um hugmyndir þeirra síðarnefndu að kaupa Grænland.

Það fór hins vegar vel á með þeim í húsakynnum Landhelgisgæslunnar fyrir fundinn og Pence þakkaði Katrínu fyrir gestrisnina sem honum og eiginkonu hans hefði verið sýnd.  Gríðarlegar öryggisráðstafanir voru gerðar vegna komu varaforsetans, helstu stofnæðum var lokað og vopnaðir lögreglumenn voru sýnilegir í Borgartúni.

Katrín rifjaði upp að seint á 19. öld hefði fimmtungur þjóðarinnar flutt vestur um haf og sest að í Kanada og Bandaríkjunum. Íslendingar væru mikil glæpasagnaþjóð og gaman væri að segja frá því að glæpasagan hefði orðið til þar.

Horfði beint í augun á Pence

Blaðamaður Washington Post veitti því sérstaka athygli að Katrín hefði horft beint í augun á Pence þegar hún sagðist ætla að ræða jafnrétti kynjanna og loftslagsmál við varaforsetann og að loftslagsváin væri mesta ógnin sem steðjaði að norðurslóðum. „Pence svaraði þessum orðum ekki heldur brosti og síðan var blaðamönnum vísað út,“ skrifar blaðamaður Post.

Pence gaf ekki kost á viðtali eftir fundinn. Hann var hraðferð, förinni er næst heitið til Bretlands þar sem bresk stjórnmál eru í hálfgerðri upplausn og kosningar á næsta leiti.  Áður en hann fór upp í Air Force 2 ræddi hann við nokkra hermenn og gaf eiginhandaáritanir. Síðan hann flaug áleiðis til Stansted-flugvallar.

Loftslagsváin stærsta ógnin á norðurslóðum

Brexit var ekki á dagskrá hjá Katrínu og Pence heldur norðurslóðir, loftslagsmál, kynjajafnfrétti og málefni hinsegin fólks. Viðhorf Pence til síðarnefndu þriggja málanna þykja umdeild. 

Katrín lagði áherslu á að Ísland færi með formennsku í norðurskautsráðinu og að loftslagsmálin yrðu þar efst á baugi. Mikilvægt væri að halda norðurslóðum eins friðsælum og mögulegt væri því hún væri þeirrar skoðunar að „loftslagsváin væri langstærsta ógnin sem steðjaði þar að.“ Leiðarljós Íslendinga væri fyrst og fremst að leita friðsælla lausna.

Katrín ræddi jafnframt kynjajafnrétti og málefni hinsegin fólks við bandaríska varaforsetann sem hefur mjög íhaldssamar skoðanir á þeim málefnum. Katrín lagði áherslu á að þau væru lykilatriði í stefnu ríkisstjórnar hennar og þótt hún hafi ekki sagt það berum orðum var augljóst að þau tvö höfðu ekki verið sammála. Forsætisráðherrann tók þó fram að samtalið hefði verið gott og Pence „farið yfir þau mál frá sínu sjónarhorni og sérstaklega jafnréttismálin.“ Ekkert launungarmál væri að hún og varaforsetinn stæðu ekki á sama stað í pólitík. 

Það væri heldur ekkert  leyndarmál að aukinn áhugi væri á málefnum norðurslóða - það sýndu heimsóknir Pence og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna á árinu. Ísland ætli að beita sér fyrir virku samtali allra þjóða sem hlut eiga að máli. „Það er hagur okkar allra að við höldum norðurskautinu sem mest lausu við vígvæðingu og ráðumst frekar í aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.“

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi