Ræddu ekki framtíð Haraldar í starfi

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Framtíð Haraldar Johannessen í embætti ríkislögreglustjóra kom ekki til umræðu á fundi hans og dómsmálaráðherra í morgun. Þetta sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra að fundi loknum. Aðspurð hvort það kæmi til greina að gera starfslokasamning við Harald svaraði hún: „Ekki að svo stöddu.“

„Ég held að ástandið sé óásættanlegt og það gera sér allir grein fyrir því. Ég lýsti þeirri skoðun minni,“ sagði Áslaug um hvað fór henni og Haraldi á milli á fundi þeirra. Hún vísar þar til deilna innan lögreglunnar um starfsemi embættis ríkislögreglustjóra og samskipta þess við lögregluembætti landsins.

„Ég mun setja af stað vinnu hér í ráðuneytinu sem mun fara yfir málið í samráði við helstu aðila,“ sagði dómsmálaráðherra. „Ég vona að það komi eitthvað hratt út úr því um hvernig við getum brugðist við þessari stöðu.“

Þetta var fyrsti fundur Áslaugar Örnu og Haraldar eftir að hún varð dómsmálaráðherra. Haraldur sagði í viðtali fyrir fundinn að hann hefði óskað eftir fundinum. Það hefði hann gert í hvert skipti sem nýr dómsmálaráðherra tæki við embætti á þeim rúmlega tveimur áratugum sem hann hefur verið ríkislögreglustjóri.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi